Stök frétt

Síðan í febrúar á þessu ári hefur Umhverfisstofnun verið með mælingar á brennisteinsvetni í Hveragerði. Niðurstöður þeirra má sjá á meðfylgjandi línuritum. Sjá má að hæstu sólarhringsmeðaltöl eru á bilinu 35-40µg/m3 sem er um fjórðungur af heilsuverndarviðmiðum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Hæstu klukkutíma meðaltöl eru nokkuð hærri eða rúmlega 180µg/m3.

Í dag eru ekki til nein viðmiðunarmörk um brennisteinsvetni fyrir almenning hér á landi en reglugerð um það er í vinnslu. Mjög mismunandi er milli landa hvaða mörk gilda fyrir almenning en víða eru sett fram mörk fyrir bæði klukkutíma- og sólahringsmeðaltal. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum eru mörk mjög misjöfn milli ríkja, hæsta sólahringsmeðaltal er leyft í Oklahoma eða 300µg/m3 en einna lægst í Vermont eða 8µg/m3. Í Kaliforníu hafa verið sett svokölluð óþægindamörk og eru þau 42 µg/m3 fyrir klukkutímameðaltal. Á meðfylgjandi mynd má sjá mælingar á klukkutímameðaltali í Hveragerði og til viðmiðunar mörk þriggja ríkja Bandaríkjanna, Arisona, Pennsylvaniu og Hawaii. Á annarri mynd má sjá sólarhringsmeðaltal og heilsuverndarmörk WHO.

Einu mörkin sem fyrir brennisteinsvetni sem í gildi eru á landinu eru vinnuverndarmörk. Vinnuverndarmörk fyrir brennisteinsvetni eru 15.000 µg/m3 fyrir 8 klukkutíma vinnudag. Umhverfisstofnun telur rétt að benda á að þegar kemur að því að meta þá mengun sem almenningur verður fyrir þá eru vinnuverndarmörk ekki nothæfur mælikvarði. Vinnuverndarmörk vernda ekki heilsu þeirra sem eru viðkvæmir fyrir og gilda aðeins á vinnustöðum. Vinnuverndarmörk eru allt að 100 sinnum hærri en þau mörk sem gilda fyrir almenning. Sem dæmi má nefna að svifryksmengun eins og hún gerist verst á gamlárskvöld í Reykjavík er nokkuð undir vinnuverndarmörkum en hinsvegar vel yfir heilsuverndarmörkum fyrir almenning.

Mælirinn í Hveragerði er staðsettur í vestanverðum bænum, um 700 metrum vestan við jarðhitasvæðið í bænum. Mælingar sýna að hæstu styrkirnir mælast í vestlægum áttum sbr. meðfylgjandi vindrós.