Stök frétt

Mynd: Sam Schooler á Unsplash

Nú á mánudaginn 7. desember hefst 15. ársfundur aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP 15) í Kaupmannahöfn. Fyrir liggur að ákveða skuldbindingar um losun gróðurhúsalofttegunda eftir að fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur. Umhverfisstofnun fylgist með þróun mála á Kaupmannahafnarfundinum.

Loftslagsbreytingar eru ein mesta áskorun sem mannkynið hefur þurft að kljást við. Áhrifa hlýnunar er þegar farið að gæta og munu magnast þegar fram líða stundir ef ekkert verður að gert. Vísindin benda ótvírætt til þess, eins og kemur fram í Fjórðu matsskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC). Loftslagsbreytingar á næstu áratugum ógna hagvexti og hagsæld til langs tíma jafnt sem dýrum og mönnum er standa höllum fæti.

Loftslagsmál eru mjög ofarlega á lista yfir verkefni Umhverfisstofnunar enda ber stofnunin ábyrgð á mörgum sviðum þessa víðfeðma málaflokks. Meðal helstu verkefna eru:

  • Bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.
  • Ritun árlegrar skýrslu um niðurstöður losunarbókhalds (National Inventory Report – NIR) til skrifstofu loftslagssamnings SÞ (UNFCCC)
  • Umsjón með skráningarkerfi um heimildir Íslands til losunar gróðurhúsalofttegunda og sér um rekstur þess
  • Umsjón með skráningarkerfi losunarheimilda á Íslandi og eftirlit með losun koldíoxíðs frá atvinnurekstri.
  • Umsjón með framkvæmd á viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir og verkefnum tengdum útvíkkun á kerfinu, sem mun ná til losunar frá flugi árið 2012 og stóriðju árið 2013.
  • Umsjón og eftirlit með skráningu á losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi í tengslum við útvíkkunina.
  • Rekstur landsskrifstofu um loftslagsvæna þróunaraðstoð og samvinnuverkefni um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda

 

Nánari upplýsingar um fundinn og loftslagsmál má finna á upplýsingasíðu Umhverfisstofnunar.