Stök frétt

Stærsta prentsmiðja landsins hefur fengið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Prentsmiðjan Oddi hefur náð þeim árangri að standast kröfur Svansins. Það tryggir að fyrirtækið er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa.

„Það er mikið gleðiefni að stærsta prentsmiðja landsins sé nú formlega Svansmerkt og taki þannig þátt í því að byggja upp sjálfbært samfélag. Ég vil óska Odda til hamingju með þennan merka áfanga. Hér greini ég jákvæðar afleiðingar vistvænnar innkaupastefnu ríkisins í verki, en áhugi á umhverfisvottun hefur aukist mjög frá því að ríkisstjórnin samþykkti stefnu um vistvæn innkaup í mars síðastliðnum. Oddi er annað fyrirtækið sem ég veiti Svansvottun á stuttum tíma og vona ég að þeim fjölgi jafnt og þétt á þessu ári" segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

„Við hjá Odda leggjum mikið upp úr því að okkar vörur séu framleiddar í sátt við umhverfið og er Svansvottunin einn áfangi af mörgum til að svo geti orðið. Umhverfisvottun Svansins er stór þáttur í að tryggja það að Oddi verði áfram í fararbroddi í íslenskum prentiðnaði hvað umhverfismál varðar" segir Jón Ómar Erlingsson framkvæmdastjóri Odda.

Prentsmiðjan Oddi

Hafdís Gísladóttir, aðstoðarmaður umhverfisráðherraPrentsmiðjan Oddi var stofnuð árið 1943 og hefur verið fjölskyldufyrirtæki alla tíð. Oddi er stærsta prentsmiðja landsins og með mesta úrval í prentun á Íslandi. Oddi er stærsti umbúðaframleiðandinn á Íslandi, auk þess sem fyrirtækið er eini bylgjuframleiðandinn á landinu. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 250. Svansvottunin nær yfir alla prentþjónustu fyrirtækisins, þ.e.a.s. almennt prentverk, tímarit, bækur, bylgjukassa, öskjur o.fl. Umhverfismál hafa ávallt skipað mikilvægan sess í starfsemi fyrirtækisins, og var Oddi m.a. fyrsta íslenska fyrirtækið til að hljóta umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar 1997, auk þess sem það hlaut umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins árið 2004. Með Svansvottun er Oddi að koma til móts við breyttar kröfur viðskiptavina m.a. vegna innleiðingar ríkisins á vistvænni innkaupastefnu.

 

Kröfur Svansins gagnvart prentsmiðjum

  • Samþykkt efni skulu vera að minnsta kosti 95% af allri efnanotkun.
  • Lögð er áhersla á notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentun. Lágmarka á pappírsúrgang við framleiðslu. Flokkun úrgangs skal vera góð og tryggt að allur hættulegur úrgangur hljóti rétta meðhöndlun.
  • Hvatt er til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og orkunotkun við framleiðsluna lágmörkuð.
  • Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktri vöru og þjónustu í innkaupum.
  • Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ákveðnum ferlum sem stýra umhverfisstarfinu. Fyrirtækið þarf að uppfylla öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.

20 ára afmæli Svansins - Umhverfismerkingar skila árangri

Jón Ómar Erlingsson, framkvæmdastjóri OddaSvanurinn fagnar 20 ára afmæli í ár. Merkið hefur náð hreint út sagt ótrúlegum árangri á Norðurlöndum og er heildarfjöldi vottaðrar vöru og þjónustu orðinn nær 6000. Mikill áhugi er meðal íslenskra fyrirtækja fyrir Svansvottun. Íslensk Svansleyfi eru nú fimm talsins auk þess sem 14 umsóknir eru í vinnslu frá fyrirtækjum á ýmsum sviðum framleiðslu og þjónustu. Oddi er önnur prentsmiðjan á landinu sem hefur tryggt sér Svansvottun.

„Vottun Odda staðfestir að umhverfisvottun er stór þáttur í að bæta samkeppnishæfni fyrirtækja." segir Anne Maria Sparf, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta 66 mismunandi vöru- og þjónustuflokka. www.svanurinn.is