Stök frétt

Höfundur myndar: Þorsteinn Jóhannsson

Mælingar á svifryki hófust við Hæðargarð rétt hjá Kirkjubæjarklaustri að kvöldi 16. apríl. Sólahringsmeðaltöl síðan mælingar hófust hafa verið sem hér segir.

  • Laugardaginn 17. apríl 27µg/m3
  • Sunnudaginn 18. apríl 37 µg/m3
  • Mánudaginn 19 apríl 87 µg/m3

Heilsuverndarmörk eru miðuð við sólarhringsmeðaltalið 50µg/m3. Mánudagurinn var því yfir heilsuverndarmörkum. Til samanburðar má nefna að þetta er svipað rykmagn og mælist í miðlungs mikilli mengun í Reykjavík.

Athugið að einstök klukkutímagildi geta verið yfir 50µg/m3 þótt sólahringsmeðaltalið nái ekki 50µg/m3. Þessar mælingar sýna að búast má við ryktoppum jafnvel þótt vindur standi ekki beint af eldstöðinni. Aska sem hefur fallið áður fer að fjúka um leið og vind hreyfir að ráði.

Kirkjubæjarklaustur eru nokkuð austan við mesta öskufallið. Búast má við mun hærri gildum nær Eyjafjallajökli og undir Eyjafjöllum má áætla að styrkur svifryks hafi mælst í þúsundum µg/m3 þegar verst var.

Mælirinn var ekki settur upp þar því líkur eru á því að hann muni slá út í svo mikill rykmengun.

Fylgjast má með mælingum við Kirkjubæjarklaustur á slóðinni kort.vista.is.

Öskusýni frá Mýrdalssandi sem Jarðvísindastofnun HÍ lét Umhverfisstofnun í té var sent í kornastærðargreiningu hjá Nýsköpunarmiðstöð. Niðurstöður sýna að um fjórðungur kornanna eru svifryk, það er minna en 10 míkron. Svifryk á greiða leið niður í lungu og getur haft óæskileg áhrif á heilsu.

Mælingar á Reyðarfirði sýna ekki aukningu í styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2).

Auk þess eru svifryksmælistöðvar í Reykjavík og á Akureyri.