Stök frétt

Höfundur myndar: Michael Westhoff

Nokkuð hefur borið á því að undaförnu að aðilar sem taka að sér garðaúðun í atvinnuskyni bjóði jafnframt upp á það að úða gegn kóngulóm utan á húsum með sömu efnum og notuð eru til garðaúðunar. Samkvæmt reglum sem gilda um garðaúðun og reglugerð um meindýraeyða er ljóst að þeim sem hafa leyfi til garðaúðunar er ekki heimilt að bjóða upp á þess þjónustu.

Um starfssvið garðaúðara í Reglum nr. 238/1994 segir m.a. „Þeir einir mega stunda garðaúðun í atvinnuskyni sem til þess hafa leyfi frá Umhverfisstofnun. Með garðaúðun er átt við úðun trjáa og runnagróðurs gegn skordýrum“.

Um starfssvið meindýraeyða í reglugerð nr. 149/1989 segir m.a. „Sá einn má kalla sig meindýraeyði sem til þess hefur fengið leyfi Hollustuverndar ríkisins. Með meindýrum er átt við rottur og mýs annars vegar, og skordýr og aðra hryggleysingja hins vegar, sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við hýbýli manna, í peningshúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv.“

Af ofangreindu er ljóst að einungis þeim sem leyfi hafa til meindýraeyðingar er heimilt að taka að sér í atvinnuskyni verk eins og úðun gegn köngulóm eða eyðingu geitungabúa svo dæmi séu tekin. Meindýraeyðar hafa yfir að ráða sérhæfðum efnum sem eiga þátt í að tryggja að viðundandi árangur náist með aðgerðum. Húseigendur eru því að kaupa köttinn í sekknum ef þeir láta úða með efnum til að eyða skordýrum á gróðri í ofangreindum tilgangi. Sé til dæmis um að ræða köngulær, þá drepast þær að vísu allar við úðunina, en það verður fljótlega allt orðið fullt af þeim aftur vegna þess að þessi efni hafa enga eftirvirkni.