Stök frétt

Höfundur myndar: Guðrún Lára Pálmadóttir

Vatnshellir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er vinsæll viðkomustaður gesta eftir að hann var gerður aðgengilegur fólki með talsveðum framkvæmdum. Hellirinn er því orðinn vel aðgengilegur fólki en jafnframt var honum lokað fyrir almennri umferð honum til verndar og verður eingöngu hægt að heimsækja hann með leiðsögn.

Hellirinn var opnaður formlega þann 15. júní af umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur eftir undirritun Verndaráætlunar þjóðgarðsins. Laugardaginn 28. júní hófust skipulagðar ferðir í hellinn á vegum þjóðgarðsins með leiðsögn landvarða. Í upphafi voru áætlaðar þrjár ferðir í viku, kl. 14 á miðviku-, laugar- og sunnudögum en aðsókn var strax það mikil að bætt var við ferðum kl. 15:30 á laugar- og sunnudögum. Einnig hafa verið farnar nokkrar aukaferðir með hópa. Takmarkaður fjöldi kemst með í hverja ferð og er því nauðsynlegt að panta í hellaferðir með góðum fyrirvara.  Vikuna 4.-10. ágúst verður tilraunaverkefni í þar sem leiðsögumenn munu vera við hellinn allan daginn og bjóða upp á ferðir í hann milli 10-17.

Hellaferðin tekur um klukkustund. Gjald fyrir hellaferð er 1000 kr. fyrir fullorðna en frítt fyrir börn. Þjóðgarðurinn útvegar hjálma og ljós en fólki er bent á að klæða sig vel því hitastigið í hellinum eru einungis um 5°C.

Vatnshellir er um 200 metra langur og þar er hátt til lofts og vítt til veggja utan á einum stað þar sem lítillega þarf að beygja sig undir hraunhaft. Hellaferðirnar eru skipulagðar til 15. ágúst og verður framhald þeirra ákveðið eftir reynslu ferðanna í sumar og útfrá heimsóknarþoli hellisins.

Bætt aðgengi að Vatnshelli er einstakt verkefni sem Árni B. Stefánnson augnlæknir og hellakönnuður er hugmyndasmiður að. Verkið var nær eingöngu unnið í sjálfboðavinnu og lagði fjöldi sjálboðaliða fram mikla vinnu við verkið. Umhverfisstofnun og Snæfellsbær lögðu fjármuni í verkefnið.

Meginmarkmiðið var að gera hellinn aðgengilegan sem sýningar- og fræðsluhelli en leiðarljósið jafnframt að vernda hann um ókomna framtíð svo ekki verði á honum frekari skemmdir en nú er orðið. Til þess að tryggja það er nauðsynlegt að hafa hellinn lokaðan fyrir almennri umferð. Í hellinum eru viðkvæmar hraunmynanir, m.a. dropsteinar sem hafa örþunna skel og brotna við minnstu snertingu. Vatnshellir er í Purkhólahrauni sem talið er vera 5000-8000 ára gamalt. Í honum eru einhverjir stærstu dropsteinar sem fundist hafa í íslenskum helli. Flestir þeirra höfðu verið skemmdir en hafa steinarnir nú verið lagfærðir. Einnig eru í hellinum afsteypur af 37 dropsteinum sem voru skemmdir eða fjarlægðir úr Borgarhelli í Gullborgarhrauni til að gefa fólki hugmynd um veröld sem var.

Hellaferðirnar eru viðbót við fjölbreytta sumardagskrá á vegum þjóðgarðsins til 15. ágúst. Auk hellaferða eru spennandi gönguferðir alla fimmtudaga frá Djúpalónssandi að Dritvík og föstudaga frá Arnarstapa að Hellnum. Báðar göngurnar hefjast kl. 14 og sjá landverðir um leiðsögn. Einnig er krökkum boðið í sérstaka barnastund með landvörðum á Arnarstapa kl. 11 á laugardögum. Nokkrar sérferðir hafa verið farnar og er nýafstaðin vel heppnuð ganga með Sæmundi Kristjánssyni þar sem gengið var frá Búðakirkju að Selavík. Gestastofa þjóðgarðsins á Hellnum er opin alla daga frá 10-18 og þar eru veittar nánari upplýsingar um hellaferðir og aðra viðburði og tekið við pöntunum.