Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að endurskoðaðri landsáætlun um úrgang og ber hún heitið Landsáætlun um úrgang 2010-2022. Nýrri áætlun er ekki ætlað að koma í stað eldri landsáætlunar sem gefin var út árið 2004, heldur byggja á hennar grunni og vera framhald á þeirri umfjöllun sem þar fór fram. Í nýju tillögunni er fjallað um breytingar sem orðið hafa á löggjöf um meðhöndlun úrgangs síðan 2004, um stöðu mála á Íslandi og hvernig gengið hefur að ná markmiðum eldri áætlunar. Einnig er horft til framtíðar því í tillögunni er áætlunarhluti sem var endurskoðaður í heild sinni en hann skiptist í tvennt, annars vegar almenn markmið sem byggja m.a. á forgangsröðun varðandi meðhöndlun úrgangs, sjálfbærri þróun, mengunarbótareglu, auknu gegnsæi og betri miðlun upplýsinga og hins vegar töluleg, tímasett markmið sem ber að ná innan gildistíma landsáætlunarinnar. Þessi markmið byggjast að hluta á markmiðum sem þegar hafa verið sett í lög og reglugerðir eða koma fram í Evrópugerðum, eða í drögum að slíkum gerðum, en einnig eru sett fram séríslensk markmið. Loks eru sex viðaukar sem fylgja áætluninni.

Öllum er frjálst að gera athugasemdir við tillöguna en þær þurfa að vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun í gegnum netfangið ust@ust.is með ,,Landsáætlun um úrgang" í titli. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 20. september 2010.