Stök frétt

Mikið hefur verið um að vera í Mývatnssveitinni í sumar. Baráttan við skógarkerfil og lúpínu hafa verið fyrirferðamestu og langstærstu verkefnin í sumar á verndarsvæði Mývatns og Laxár. Hafa landverðir notið aðstoðar fjölda sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar, ásamt vinnuskólakrökkum frá Skútustaðahreppi og frá verkefni Landsvirkjunar „margar hendur vinna létt verk“. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að taka plönturnar upp með rótum en þar sem því var ekki komið við þá hafa þær verið slegnar niður. Eyðing skógarkerfilsins á svæðinu hefur gengið vonum framar. Þegar mest lét í sumar voru um 20 manns að störfum í einu við eyðingu lúpínu og skógarkerfils.

Aðgengi á Skútustaðagígum hefur verið bætt en svæði milli Rófugerðishóla hefur verið „teppalagt“. Í votviðri þá veðst svæðið upp og verður hált sem og mikil drullumyndun. Því algengt að fólk leiti í að ganga utan stígs sem kom þá niður á nýtingu landeigenda á túninu. Nú hefur verið komið fyrir mottum á milli Rófugerðishóla og því komið í veg fyrir stígurinn verði háll og fólk fari út fyrir stíginn. Einnig er ráðgert að taka niður prílur sem eru á gönguleiðinni um Stakhólstjörn og setja upp hlið í staðinn. Fjölmargir ferðamannastaðir á svæðinu eru utan verndarsvæðis og því ekki í umsjón Umhverfisstofnunar. Landverðir hafa samt sem áður reynt að tryggja öryggi ferðamanna á „hættulegum svæðum“. Meðal annars var pallur fjarlægður á Hverarönd við Námafjall. Þar var hverinn komin nánast undir pallinn og ekki langt í að hann félli ofan í hverinn.