Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt opinn kynningarfund í Félagsheimilinu Blönduósi þann 15. september sl. þar sem kynnt var tillaga að starfsleyfi fyrir nýjan urðunarstað Norðurár bs. við Stekkjarvík. Guðmundur B. Ingvarsson hélt kynningu þar sem fjallað var almennt um starfsleyfi og sjálfa starfsleyfistillöguna. Að lokinni kynningu var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir úr sal. Á annan tug gesta sóttu fundinn og urðu nokkuð líflegar umræður um málefni urðunarstaðarins. Helstu atriði sem rætt var um tengdust magni og tegundum þess úrgangs sem fyrirhugað er að urða og mögulegri mengun frá staðnum.

Fyrir hönd Umhverfisstofnunar sóttu fundinn Guðmundur B. Ingvarsson og Sigríður Kristjánsdóttir.

Starfsleyfistillöguna og starfsleyfisumsókn má nálgast á skrifstofu Blönduóssbæjar, Hnjúkabyggð 33, og á vef Umhverfisstofnunar. Frestur til að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna er til 29. október nk. en þær skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun.