Stök frétt

Haldinn var borgarafundur á Kirkjubæjarklaustri um viðbrögð við mælingum á díoxíni í búfjárafurðum í Skutulsfirði. Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri stýrði fundi. Á fundinn mættu um 150 manns. Framsögumenn voru: Sigríður Kristjánsdóttir og Kristín Linda Árnadóttir frá Umhverfisstofnun, Haraldur Briem sóttvarnarlæknir og Þorsteinn Ólafsson frá Matvælastofnun.

Sigríður Kristjánsdóttir kynnti þróun díoxínlosunar á Íslandi frá 1990. Dregið hefur úr losun díoxíns hérlendis frá árinu 1990 en þá var heildarlosun díoxíns hérlendis um 11 gr. en var komin niður í tæp 4 gr. árið 2008. Losun díoxíns hérlendis er lítil í samanburði við önnur lönd en Finnland losar um 15 gr., Norðmenn um 20 gr. og Svíþjóð um 35 gr. á ári. Bretland losar um 200 gr. árlega. Losun díoxíns í Evrópu hefur dregist hratt saman, úr 11 kg niður í rúm 2 kg í ESB-27 frá 1990-2008.

Sigríður fór yfir hvernig mörk fyrir díoxín eru en settar voru reglur í Evrópusambandinu sem teknar voru upp hérlendis árið 2003 en veitt undanþága fyrir starfandi sorpbrennslur á þeim tíma. Fyrir nýrri brennslur eru mörk fyrir díoxín svokölluð losunarmörk fyrir útblástur en ekki umhverfismörk eða mörk fyrir heildarlosun á ári. Mörkin eru 0,1 ng/m3 í útblæstri frá sorpbrennslustöð. Heildarlosun er því háð magni, tegund sorps og loftflæði stöðvarinnar. Þannig getur það gerst að stöð sem hefur hærra útblástursgildi hafi lægri heildarlosun en stöð með lægra útblástursgildi eins og raunin er t.d. hérlendis þar sem heildarlosun á Kirkjubæjarklaustri er metin lægri en í Skutulsfirði þrátt fyrir að útblástursgildið sé hærra á Kirkjubæjarklaustri.

Umhverfisstofnun hélt fund með eldri sorpbrennslum í janúar þar sem ákveðið var að losun díoxíns yrði aftur mæld hjá starfandi sorpbrennslum og niðurstaðna úr þeim mælingum er að vænta á næstu vikum. Stofnunin gerði tillögu til umhverfisráðherra í byrjun árs um að eldri sorpbrennslum yrði gefinn tímafrestur til þess að uppfylla hert skilyrði. Ráðherra hefur greint frá því opinberlega að hún hafi í hyggju að flýta þeirri vinnu hjá ráðuneytinu. Umhverfisstofnun hefur ákveðið að leggja í viðamiklar mælingar á díoxín í umhverfinu á Íslandi í nágrenni við mögulegar uppsprettur díoxíns á næstu vikum og mánuðum.

Sigríður fór yfir starfsleyfisskilyrði sorpbrennslunnar á Kirkjubæjarklaustri og greindi frá því að gerðar hefðu verið athugasemdir vegna mælinga árið 2010 og kröfur um úrbætur. Sigríður fór yfir mælingar á mengun frá sorpbrennslunni á Kirkjubæjarklaustri og kynnti bráðabirgðaniðurstöður nýrra mælinga frá því í janúar en skv. þeim er útblástur við þau mörk sem sett eru fyrir stöðina.

Haraldur Briem fór yfir heilsufarshættur af díoxíni. Rannsóknir á dýrum sýna mikil áhrif en minni á menn. Fylgst hefur verið með bandarískum hermönnum sem voru útsettir fyrir díoxíni í Víetnam stríðinu (Agent Orange) þar sem kemur í ljós tengsl við nokkrar tegundir krabbameins hjá þeim sem urðu fyrir hvað mestri snertingu við díoxín á lengstum tíma. Aðrar rannsóknir á  verkamönnum sem unnu að framleiðslu díoxínmengaðra efna sýna ekki bein tengsl milli díoxíns og aukinnar tíðni krabbameins. Raunar hefur verið dregið í efa að díoxín sé krabbameinsvaldandi í mönnum. Haraldur hefur skoðað tölur um heilsufar á Ísafirði og bar saman við landsmeðaltal. Benda þær ekki til óvenjulegs fráviks miðað við aðra landshluta. Þó er mikilvægt að við leitum af okkur allan vafa. Haraldur kynnti þær rannsóknir sem farið verður í á næstunni í nágrenni við sorpbrennslur þar sem safnað verður sýnum, aðallega hársýnum og blóðsýnum úr fólki og vonaðist eftir góðu samstarfi í því verkefni.

Þorsteinn Ólafsson frá Matvælastofnun greindi frá því að mælst hefði díoxín í kjöti og mjólk í Skutulsfirði en ekki á Svínafelli í Öræfum. Hann taldi aðstæður á Kirkjubæjarklaustri vera með þeim hætti hvað varðar heildarlosun og nálægð búskapar við sorpbrennsluna að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af því að díoxín hefði borist í búfé í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Ekkert mjólkurbýli er í nálægð sorpbrennslunnar og fá sauðfjárbýli. Matvælastofnun mun fylgjast með rannsóknum Umhverfisstofnunar og taka sýni af búfjárafurðum í nágrenni við eldri sorpbrennslur en þess er ekki vænst að þar mælist sýni yfir mörkum. 

Allir framsögumenn þökkuðu kærlega fyrir það tækifæri að fá að koma og ræða þessi mál við heimamenn.

Almennar umræður

Spurt var af hverju ekki hefði verið talað við æsifréttamennina og þeim greint frá því hvernig staða mála sé í raun og veru? Margir tóku til máls á fundinum og lýsti yfir óánægju sinni með fréttaflutning af málinu að hann hafi verið í of miklum æsifréttastíl. Fólk benti á ábyrgð fjölmiðla. Menn tóku til máls og sögðu umræðuna skaðlega fyrir landbúnað og ferðaþjónustu.  Enginn kom frá fjölmiðlum á fundinn og vakti það furðu fundarmanna.

Kristín Linda sagði að það hefði verið reynt að koma upplýsingum á framfæri í ítarlegum fréttatilkynningum og löngu máli í viðtölum en oft erfitt að koma að heildarmyndinni enda málið margþætt og flókið. Haraldur Briem sagði sumar fréttir villandi og að erfitt væri að fá leiðréttingar. Sigríður benti á að mikilvægt væri að heimfæra ekki beint þær niðurstöður sem liggja fyrir í Skutulsfirði yfir á allar aðrar uppsprettur díoxíns, það þurfi að skoða nánar enda aðstæður og losun mengandi efna með mismunandi hætti milli staða. En á sama tíma sé ljóst að díoxín hafi mælst í búfjárafurðum í Skutulsfirði að það taki menn alvarlega og meðal annars þess vegna sé þessi fundur haldinn og að lagst verður í viðamiklar rannsóknir á næstunni.

Bent var á rangfærslur í Morgunblaðinu, þar kom fram í grein að mælingar á Svínafelli hefðu verið yfir mörkum. Talið var mikilvægt að slíkar rangfærslur yrðu leiðréttar.

Matvælastofnun tók við þessari ábendingu og ítrekaði að mælingar á mjólk á Svínafelli voru undir mörkum.

Hvert er mat Umhverfisstofnunar á brennslu á sorpi í samanburði við aðrar leiðir við förgun sorps. Hver er mengunin frá öðrum leiðum í samanburði við sorpbrennslur?

Kristín Linda sagði þetta stóra spurningu og í evrópsku samhengi að þá vilji menn brenna. Í Evrópu er flokkað mjög mikið það sem er endurnýtanlegt. Erlendis eru menn að bera sorpbrennslu saman við orkunýtingu með kolum og olíu en það á ekki við hérlendis. Mikilvægt sé að fólk sé duglegt að flokka, hætta að líta á úrgang sem rusl og líta á hann sem vöru. ESB telur að úrgangur sé eitt mesta viðskiptatækifærið innan sambandsins. Erfitt að segja að urðun sé verri eða betri en brennsla, við setjum einfaldlega umhverfiskröfur á báðar leiðirnar. Urðunarstöðunum fækkar af því að kröfurnar verða alltaf strangari og strangari og þess vegna er einnig nauðsynlegt að flokka meira. Fundarmenn tóku undir þetta og var mikill hugur í heimamönnum að flokka vel. Fram kom í máli sveitarstjóra að það væri á ábyrgð heimamanna að flokka vel því það hefði svo áhrif á hvað færi í brennsluna. Það væri í höndum heimamanna hvaða hráefni færi í brennsluna og sérstaklega mikilvægt að flokka frá plast, málma og lífrænan úrgang. Sérstaklega var hnykkt á því að allir tækju þátt í flokkun, heimili og fyrirtæki.

Fram kom í máli fundarmanns að díoxín var ekki rætt mikið þegar verið var að stofna brennsluna á árunum 1996-1997.  Hefur mönnum orðið ljósari hættan af díoxín með árunum? Hvers vegna var ekki bara lokað á þessar hugmyndir þá?

Kristín Linda greindi frá því að sorpbrennslustöðin fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og  undanþága frá fjarlægðarmörkum var veitt í samræmi við mat á mengun frá stöðinni sem ekki var talið valda hættu. Það sem kom nýtt inn með reglugerð frá 2003 er að þá var tekin ákvörðun í ESB um að setja mörk á losun díoxíns frá brennslum vegna þess að þær voru helsta uppspretta díoxíns og þá töldu menn nauðsynlegt að draga verulega úr heildarlosun díoxíns út í umhverfið. Í ESB voru gefin fimm ára aðlögunartímabil fyrir sorpbrennslur til að uppfylla hertari kröfur. Það er verið að setja strangari kröfur eftir því sem þekkingin eykst. En kröfurnar duga ekki einar og sér, við verðum að sýna árangur og þess vegna erum við að leggja í viðamiklar mælingar.

Fram komu ábendingar um hvar væri gott að taka sýni, líka þar sem urðun var hér áður fyrr en fólk taldi að sorpmálin hefðu verið í verri málum fyrir sorpbrennsluna.

Sigríður þakkaði ábendingarnar og greindi frá því að sérfræðingar myndu annast sýnatöku á næstunni.

Spurt var um hvaða frumefni eru í díoxín?

Sigríður greindi frá því. Á vef Umhverfisstofnunar er að finna upplýsingar um díoxín og fúrön.

Rætt var um undanþáguna fyrir eldri sorpbrennslur.

Kristín Linda sagði að afstaða Umhverfisstofnunar hvað varðar undanþágur hafi verið að breytast á undanförnum árum og nú er það stefna stofnunarinnar að mæla almennt ekki með sérstökum undanþágum, reynslan af þeim sé almennt ekki góð.

Fundarmaður sagði að almennt ætti díoxín ekki að myndast í 800 gráðum og hærri og almennt er sá hiti í brennslunni - en það er ekki ævinlega. Sorp var brennt úti á Stjórnarsandi, þar ætti að vera díoxín í jörð. Er hægt að reikna hvað díoxín var þá mest út frá helmingunartíma?

Haraldur sagði að helmingunartími díoxíns í manninum séu sjö ár. Sigríður sagði að helmingunartími í jarðvegi frá nokkrum dögum og upp í 100 ár, það fer eftir hversu djúpt díoxínið er komið í jarðveg því sólarljós hefur talsverð áhrif á niðurbrot þess. Sigríður treysti sér ekki til þess að segja til um hvort hægt væri að reikna út heildarmagn díoxíns frá fyrri árum með mælingum núna en útilokaði það ekki. 

Hvernig er með mengunardreifinguna frá sorpbrennslunni?

Sigríður greindi frá því að hvað styrk kolmónoxíðs (CO) varðar t.d. að þá er styrkur niðri við jörð við stöðina langt undir heilsuverndarmörkum og hæstu gildi mengunar líkleg um 150 m frá stöðinni en langt undir heilsuverndarmörkum hvað varðar kolmónoxíð.

Eru einhverjar líkur á því að brennsla án hreinsibúnaðar geti náð mörkum um nýjar brennslur? Starfsleyfishafinn sagði að það skipti máli að flokka. Síðan síðasta mæling á díoxín var gerð var hafin flokkun á staðnum sem er líklegt til þess að hafa áhrif á losunina.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar treystu sér ekki til þess að svara því til hlítar á fundinum en það þó talið ólíklegt og Sigríður efast um að díoxín muni mælast innan viðmiðunarmarka sem gilda fyrir nýjar brennslur í næstu mælingu þótt hún kunni að lækka eitthvað vegna áhrifa frá flokkun.

Sveitarstjóri og ráðamenn spurðir um hvernig þeir ætli að bregðast við til þess að uppfylla kröfur um sorpbrennslu sem munu gilda fyrir allar stöðvar á næstunni?

Þetta er á dagskrá sveitastjórnar á mánudag. Starfsleyfið er til desember 2012.

Er möguleiki á að hafa símælingu á óæskilegum efnum?  

Fram kom að símæling á díoxín er a.m.k. ómöguleg en símæling á ýmsum óæskilegum efnum sé möguleg og er framkvæmd í nýrri sorpbrennslum hérlendis en að hún sé kostnaðarsöm. Umhverfisstofnun sinnir aukinheldur símælingum á loftgæðum víða um land en að búnaður sé kostnaðarsamur og krefjist fagþekkingar.

Fram kom í máli fyrrum starfsmanns brennslunnar að í mælingunni árið 2007 hafi uppsetning brennslunnnar verið með öðrum hætti en er í dag, að hluta til annar búnaður og að það kunni að skýra hversu hátt gildið hafi mælst þá.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar treystu sér ekki til að leggja mat á þessar upplýsingar.

Hefur díoxín mælst í innfluttu fóðri og áburði?

Þorsteinn greindi frá því að fylgst er með því fóðri sem við kaupum inn í gegnum markað ESB. Hér á svæðinu verða gerðar mælingar og þess vænst að þær staðfesti að hér sé allt í lagi að mati MAST.

Almenn ánægja var með fundinn og tóku margir fundarmenn til máls og þökkuðu kærlega fyrir hann og upplýsingagjöfina.

Eygló sleit fundi um 19:30.

Umhverfisstofnun vill koma því á framfæri að þess hafi verið gætt að þær upplýsingar sem stofnunin veitti á fundinum hafi verið faglega unnar og ekki dregið úr. Umhverfisstofnun hefur brugðist við niðurstöðum í Skutulsfirði með því að leggja til við ráðherra að eldri sorpbrennslum verði gefinn tímafrestur til að uppfylla hert skilyrði um losun mengandi efna, þar á meðal díoxíns og hefur ráðherra þá tillögu til meðferðar og hefur lýst því yfir að þeirri vinnu verði flýtt. Einnig hefur Umhverfisstofnun ákveðið að leggja í viðamiklar rannsóknir á díoxíni í umhverfinu við allar mögulegar uppsprettur díoxíns hér á landi. Sóttvarnarlæknir mun kanna díoxínmengun í mönnum og fylgjast með heilsufari fólks. Væntanlega munu vísindamenn frá Háskóla Íslands og öðrum stofnunum koma að slíkum rannsóknum. Matvælastofnun rannsakar nú díoxín í búfjárafurðum.