Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Undanfarnar vikur hefur mælst óvenju mikil eyðing ósonlagsins yfir norðurhveli jarðar sem rekja má til óvenjulegra kaldra háloftavinda (polar vortex) sem hafa komið í veg fyrir að lofthjúpurinn yfir norðurheimskautinu blandaðist við loft frá suðlægari breiddargráðum. Þetta ástand leiddi til mjög lágs hitastigs í lofthjúpnum sem veldur sambærilegu ástandi og myndast árlega yfir suðurheimsskautinu að vetrarlagi. Marssólin hefur skinið á þennan kalda loftmassa og klofið niður klór- og brómfrumeindir frá ósoneyðandi efnum eins og klórflúorkolefnum, halónum og fleiri slíkum.  Klórinn og brómið brjóta niður ósonlagið með því að hvarfast við ósonsameindirnar og mynda stakar súrefnissameindir. Ósoneyðingin á sér stað í heiðhvolfinu í um 15-20 km hæð yfir jörðu. Upplýsingar frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) benda til að um 40% þynningu á ósonlaginu sé að ræða og hefur hún aldrei áður verið svo mikil á norðurhveli jarðar. Búast má við að áhrifa þessara eyðingar ósonlagsins muni gæta hér á landi í vor og í sumar með aukinni útfjólublárri geislun á heiðskírum dögum.

Ósonlagið er það svæði í lofthjúp jarðar þar sem þéttleiki ósons er mestur, í 15-35 km hæð yfir jörðu, og verndar lífríki jarðar gegn hættulegum útfjólubláum geislum sólar. Þessi hættulega geislun getur skaðað lífið í sjónum, valdið húðkrabbameini, augnsjúkdómum og bælt ónæmiskerfi líkamans. Losun ósoneyðandi efna var bönnuð með alþjóðlegum samningi, Montrealbókuninni frá 1987, sem verður 25 ára á næsta ári. Hér á landi hefur notkun ósoneyðandi efna minnkað um 98% frá því hún var mest árið 1987.

Umhverfisstofnun bendir fólki sem stundar útivist, s.s. skíði, fjallaferðir og sund að gæta þess að nota sólarvarnarefni á meðan á útivist stendur og nota sólgleraugu sem vernda augun frá geislun sólar. Á vefsvæði Umhverfisstofnun um grænan lífsstíl má finna upplýsingar um sólarvörn fyrir börn og fullorðna.

Nánari upplýsingar