Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur í allnokkurn tíma gert kröfur um úrbætur í mengunarmálum kalkþörungaverksmiðju Íslenska Kalkþörungafélagsins ehf. á Bíldudal. Fyrirtækið hefur gert margvíslegar úrbætur og breytingar á mengunarvarnabúnaði en hefur þrátt fyrir það ekki náð stjórn á styrk ryks í útblæstri. Mörk fyrir styrk ryks í útblæstri eru 20 mg/Nm3 en við síðustu mælingu mældist styrkur ryks 150 mg/Nm(Nm3 er normalrúmmetri).
 

Í því skyni að ýta enn frekar á um úrbætur hefur Umhverfisstofnun því tekið ákvörðun um að áminna Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. Jafnframt gerði Umhverfisstofnun kröfu um að rekstraraðili setji upp fullnægjandi hreinsibúnað eða hafi gert aðrar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að ákvæði starfsleyfis séu uppfyllt fyrir 15. júní nk. Enn fremur skal rekstraraðili framkvæma mælingar á rykmagni eigi síðar en 1. júlí 2011 og senda niðurstöður þessara mælinga til Umhverfisstofnunar eins fljótt og unnt er en eigi síðar en 1. ágúst 2011. Umhverfistofnun benti og á að heimilt er að leggja dagsektir á fyrirtækið, allt að 500.000 kr. á dag, sinni fyrirtækið ekki úrbótum innan framangreinds frests.

Ferill málsins

Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar með starfsemi Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. árin 2008 og 2009 komu fram nokkur atriði sem ekki voru í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins og fyrirtækið þurfti að ráða bót á. Meðal þeirra var að þurrhreinsibúnaður verksmiðjunnar dugði ekki til að halda útblæstri undir tilskilin mörk. Fyrirtækið upplýsti stofnunina um úrbætur en þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir tókst ekki að vinna bug á vandamálinu. Vorið 2010 bar mikið á kvörtunum vegn rykmengunar frá kalkþörungaverksmiðjunni og er þá leitað svara hjá fyrirtækinu. Í tölvupósti frá fyrirtækinu, dags. 3. júní 2010, er því lýst yfir að fyrirtækið hafi ákveðið að setja upp vothreinsibúnað auk þess sem skipt hafi verið frá því að nota gas við þurrkun yfir í rafmagn. Jafnframt var tilgreint að áætlað væri að búnaðurinn yrði kominn eftir þrjár til fjórar vikur.

Í því skyni að þrýsta á um tilgreindar úrbætur var Íslenska Kalkþörungafélagið þann 9. júní upplýst um áform stofnunarinnar að veita fyrirtækinu áminningu með kröfum um úrbætur vegna brota á tilteknum ákvæðum starfsleyfis. Var fyrirtækinu gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og barst svar fyrirtækisins Umhverfisstofnun þann 28. júní 2010 þar sem áréttað var að unnið væri að endurbótum á rykhreinsibúnaði. Staðfest var í eftirliti stofnunarinnar þann 28. júlí 2010 að búnaðurinn var kominn upp að mestum hluta en að beðið væri afgreiðslu á því sem á vantaði. Í ágúst 2010 kom að lokum staðfesting á að búnaðurinn hefði verið settur upp. Var þá gert ráð fyrir að fyrirtækinu hefði tekist að komast fyrir vandann.

Þrátt fyrir framangreindar úbætur bárust Umhverfisstofnun enn á ný kvartanir í október 2010 og var því farið í aukaeftirlit í nóvember og fyrirtækinu í framhaldinu gert að tryggja ásættanlega lausn á rykhreinsun og skila til Umhverfisstofnunar mælingum á styrk ryks í útblæstri. Í erindi fyrirtækisins til Umhverfisstofnunar, dags. 14. janúar 2011, kemur fram að stöðugt hafi verið unnið að endurbótum á rykhreinsibúnaði og að rykmagn í útblæstri hafi minnkað verulega. Jafnframt að áfram verði unnið að breytingum og endurnýjun á rykhreinsibúnaði.