Umhverfisstofnun hefur ákveðið að beita sorporkustöð Vestmannaeyja dagsektum frá og með 1. júní næstkomandi. Einnig verður starfsemi stöðvarinnar takmörkuð við tilteknar veðuraðstæður.
Umhverfisstofnun hefur veitt fyrirtækinu töluvert svigrúm til að betrumbæta mengunarvarnarbúnað sinn en telur nú fullreynt að úrbætur náist miðað við núverandi hreinsibúnað. Loftmengun frá sorpbrennslu er almennt talin verri en flest önnur loftmengun. Það stafar m.a. af háu hlutfalli sóts og þungmálma í rykhluta útblástursins. Svifryk hefur margvísleg heilsuspillandi áhrif. Það er því æskilegt að lágmarka eins og kostur er rykmengun. Einnig telur Umhverfisstofnun að útfæra þurfi neyðaráætlun frekar.
Umhverfisstofnun veitti sorporkustöðinni áminningu og krafðist úrbóta þann 12. maí 2010. Gerð var krafa um að settur yrði upp fullnægjandi hreinsibúnaður eða aðrar fullnægjandi ráðstafanir gerðar sem draga myndu úr magni ryks í útblæstri. Ennfremur var farið fram á nýjar mælingar skv. starfsleyfi og að þær yrðu gerðar í september 2010. Losunarmörk samkvæmt starfsleyfinu eru 200 mg/Nm. Mælingar á útblæstri sem gerðar hafa verið árin 2004, 2005, 2007, 2008, 2009 og 2010 hafa allar sýnt niðurstöður þar sem rykmagn í útblæstri sorporkustöðvarinnar er allt að þrefalt það magn sem tilgreint er sem hámark losunar í starfsleyfi. Í september 2004 mældist rykmagn 333 mg/Nm3, í desember 2005 626 mg/Nm3, í janúar 2007 681/mg/Nm3 og í október sama ár var það 421 mg/Nm3. Í mælingum frá í apríl 2008 mældist ryk í útblæstri 493 mg/Nm3 og í júní 2009, 460 mg/Nm3. Í öllum tilfellum hefur verið minnst á ofangreind frávik í eftirlitsskýrslum með fyrirtækinu og farið fram á úrbætur. Mælingar á útblæstri fóru aftur fram 7. september 2010. Í þeim kemur fram að ryk í útblæstri mældist 462 mg/Nm3. Samkvæmt nýjustu mælingum á útblæstri frá því í mars 2011 er ryk í útblæstri 420mg/Nm3.
Þann 23. febrúar 2011 kynnti Umhverfisstofnun Bæjarveitum Vestmannaeyja áform um sviptingu starfsleyfis. Ítrekaðar ábendingar Umhverfisstofnunar í eftirlitsskýrslum um að gera þurfi úrbætur á hreinsibúnaði hvað varðar útblástur og formleg áminning og krafa stofnunarinnar um úrbætur frá 12. maí 2010 hafa ekki leitt til þess að rekstraraðili gerði nauðsynlegar úrbætur á hreinsibúnaði stöðvarinnar. Umhverfisstofnun telur að fram séu komin áform um ráðstafanir til úrbóta á sorporkustöðinni til að ná niður ryki. Ákvörðun um hvaða úrræði verði fyrir valinu liggur þó ekki fyrir né hvenær úrbætur verði framkvæmdar. Sá tími sem er áætlaður fram að endanlegri ákvörðun er allt of langur að mati Umhverfisstofnunar og framkvæmdatíminn er óviss. Því grípur stofnunin til eftirfarandi aðgerða: