Stök frétt

Aðeins fyrir efni um Al
Umhverfisstofnun hélt kynningafund 23. maí s.l. í Duushúsi, Reykjanesbæ, um tillögu stofnunarinnar að starfsleyfi fyrir Al, álvinnslu.

Starfssvið Als, álvinnslu hf. er endurvinnsla á svokölluðu álgjalli en það er efni sem myndast á yfirborði kerja í álverum vegna snertingar við anrúmsloft. Álgjall þetta inniheldur ál að hluta og í álverunum er það skafið af og sent til endurvinnslufyrirtækja á borð við Al. Endurvinnslan fer þannig fram að álgjallið er hitað í sérstökum ofni og álinu hellt undan í mót. Það sem af gengur er efni sem kallað er gjallsandur. Gjallsandur er virkur úrgangur sem meðhöndla þarf á einhvern hátt og þar er um að ræða helsta úrlausnarefni fyrirtækisins í umhverfismálum.

Alur, álvinnsla hf. hefur sótt um starfsleyfi þar sem tilteknar forsendur í fyrra starfsleyfi hafa ekki gengið upp hjá fyrirtækinu og breytingar hafa orðið á starfseminni frá því sem fyrirhugað var og því hefur Umhverfisstofnun sótt það fast að nýtt endurskoðað starfsleyfi yrði gefið út.

Í tillögunni eru t.d. ákvæði um gæðatryggingu hráefna sem miða að því að rekstraraðili setji tilteknar lágmarkskröfur uppi um hvað megi fara til vinnslu og að til sé áætlun um hvað beri að gera ef þetta bregst. Þá er lagt til að meðhöndun gjallsands og síuryks í skolgryfju til að draga úr umhverfisáhrifum efnisins sé aðeins heimil með samþykki Umhverfisstofnunar sem myndu byggjast á tilteknum skilyrðum starfsleyfisins.

Á fundinum voru þessi atriði öll rædd. Fram komu spurningar um ammóníakslykt vegna meðhöndlunar á gjallsandinum í skolgryfju og var því svarað til að helstu ráðstafanir sem mögulegt væri að gera vegna lyktarinnar myndu annars vegar felast í því að hafa nægjanlega stóra skolgryfju og hins vegar að hafa uppsprettu lyktarinnar fjarri almannafæri. Fram kom að einnig kynni að vera rétt að haga málum þannig til reyna að sæta lagi við meðhöndlunina eftir vindátt ef upp koma vandamál vegna þessa. Alur hefur í tengslum við umsókn sína komið á framfæri verklýsingu sinni um málið.

Þá var gerð grein fyrir mögulegri díoxínmengun frá Al, en ekki var talið að hætta væri á slíkri mengun þar sem ekki er notað salt í vinnsluferli hjá Al. Rætt var um eldri vandamál sem komið hafa fram um meðhöndlun gjallsandshaugs við Fitjar og gjallsands sem var komið fyrir við Berghólabraut. Fram kom að Umhverfisstofnun hugleiddi að fjalla um þessi mál með sérákvæðum í starfsleyfi, en hvarf síðan frá því og tók þá ákvörðun að líta á málið sérstaklega sem eftirlitsmál. Ný tillaga um starfsleyfi fjallar því eingöngu um framtíðarrekstur fyrirtækisins.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 23. júní 2011. Athugasemdir eða umsagnir um tillöguna skal senda til Umhverfisstofnunar og skulu þær vera skriflegar.