Stök frétt

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra beinir þeim tilmælum til landeigenda og handhafa hlunnindakorta að eggjataka og hlunnindaveiðar í sumar verði takmarkaðar eða felldar niður á þessu ári vegna lélegs ástands fuglastofnanna og fæðubrests undanfarin ár.

Vísindamenn hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af fækkun í nokkrum stofnum sjófugla og viðkomubresti hjá þeim. Upplýsingar um þróun og stöðu sjófugla voru teknar saman á nýlegri málstofu umhverfisráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar kom fram að veruleg fækkun hefur verið í nokkrum stofnum og segja má að hrun hafi verið í lundastofninum. Lélegur varpárangur hefur verið hjá lunda, sérstaklega á sunnanverðu landinu, sl. 4-5 ár og í fyrra varð algjör viðkomubrestur í lundavarpi á Suðurlandi. Stuttnefju hefur fækkað um allt land og álku og langvíu um sunnan- og vestanvert landið, en stofnar þeirra hafa haldið nokkuð í horfinu um norðanvert landið.

Þótt eggjataka og veiði teljist ekki helsti áhrifavaldur breytinganna eru þetta þeir þættir sem hægt er að hafa áhrif á til þess að styrkja stofnana og draga úr álagi á fuglinn, einkum á varptíma.