Stök frétt

Hótel Eldhestar hefur nú fengið vottun Norræna Umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Hótel Eldhestar er frumkvöðull í umhverfismálum, en hótelið fékk fyrst vottun Svansins árið 2002. Strangar kröfur tryggja að hótelið er enn í fremstu röð varðandi lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa frá starfseminni. 

Nú bera alls 16 fyrirtæki merki Svansins, þar af tvö hótel og tvö farfuglaheimili.

Hótel Eldhestar

Hótel Eldhestar er sveitahótel í nágrenni Hveragerðis. Á hótelinu er gisting fyrir rúmlega 60 manns. Hjá Eldhestum og Hótel Eldhestum eru margir valmöguleikar í boði, varðandi að sameina dvöl á hótelinu og margs konar afþreyingu. Hótel Eldhestar hefur lengi lagt áherslu á að minnka umhverfisáhrif af starfsemi sinni og voru fyrst hótel á Íslandi til að fá vottun eftir ströngum kröfum Svansins. Með Svansvottun er staðfest að Hótel Eldhestar er enn fremst í flokki hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa.

Svansmerking fyrir hótel

Allir gististaðir geta fengið Svansmerkið að því tilskildu að þeir uppfylli strangar kröfur Svansins. Nauðsynlegt er að vera með gott heildaryfirlit yfir umhverfisáhrif starfseminnar en Svansvottun felur meðal annars í sér að:

  • Hótelið nær lágmarksviðmiðum er varðar orkunotkun, vatnsnotkun, efnanotkun og úrgangsmeðhöndlun.
  • Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktum vörum og þjónustu í innkaupum hótelsins.
  • Flokkun úrgangs sé góð og tryggt að allur hættulegur úrgangur fái rétta meðhöndlun.
  • Starfsmenn fái reglulega þjálfun og fræðslu.
  • Umhverfisstarfi hótelsins er stýrt á skilvirkan hátt.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.