Stök frétt

Notkun á burðarpokum úr plasti er mikil á Vesturlöndum en um leið vandamál sem taka verður á með einhverjum hætti. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins voru alls framleidd 3,4 milljón tonn af burðarpokum í Evrópu árið 2008, en það samsvarar þyngd 2 milljóna fólksbíla. Er áætlað að hver einstaklingur innan Evrópusambandsins noti um 500 plastpoka að meðaltali á ári. Þessi mikla notkun plastpoka veldur miklum umhverfisáhrifum því talsvert magn af plasti er hvorki endurunnið né fargað heldur berst til sjávar með regni, frárennsli og ám eða fýkur til hafs. Plastefni brotna þar niður í smærri einingar á mjög löngum tíma, en eyðast jafnvel aldrei að fullu. Plast safnast því upp í umhverfinu og er til dæmis áætlað að í Miðjarðarhafi sé að finna um 250 milljarða fljótandi plastagna og 500 tonn af plasti. Plast hefur einnig safnast fyrir á ákveðnum svæðum í heimshöfunum fyrir tilstuðlan hafstrauma og hafa þar myndast stórir flekkir eða eyjar úr ýmis konar plasti sem stækka stöðugt. Stærsta svæðið er í Kyrrahafi, en sams konar svæði hefur meðal annars fundist í Þanghafinu sem er hluti af Atlantshafi. Plastið hefur mikil áhrif á lífríki því árlega drepst mikill fjöldi sjófugla og sjávarspendýra eftir að hafa étið plast, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Þá geta ýmis mengandi efni loðað við plastagnirnar, s.s. þrávirk lífræn efni.

Ein lausnin á þessu vandamáli er að draga verulega úr notkun plastpoka og plastumbúða. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leitar nú eftir áliti almennings á því hvernig best væri að draga úr notkun plastpoka, hvort gjaldtaka eða skattlagning yrði áhrifarík eða hvort aðrar leiðir, eins og til dæmis almennt bann við notkun plastpoka, væru hugsanlega árangursríkari. Einnig leitar framkvæmdastjórnin eftir áliti almennings á því hvernig gera megi vörur sem eru í umbúðum sem brotna niður í náttúrunni sýnilegri og með hvaða aðgerðum megi auka þær kröfur sem gerðar eru um lífrænt niðurbrot umbúða í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang. Sú tilskipun var innleidd hér á landi með setningu reglugerðar nr. 609/1996 um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs.

Sjónarmið almennings gæti haft áhrif á tilskipanir Evrópusambandsins og þar með löggjöf hér á landi vegna EES samningsins.

Hægt er að að svara könnun Evrópusambandsins og senda inn tillögur og ábendingar til 9. ágúst nk, með að smella hér.