Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð HB Granda hf. í Berufirði þar sem rekstraraðila er heimilað að framleiða allt að 4000 tonn af laxi og allt að 4000 tonn af þorski á ári í sjókvíum í Berufirði.

HB Grandi hf. óskaði eftir breytingu á heimildum í starfsleyfi stöðvarinnar vegna aukinnar áherslu á þorskeldi. Umhverfisstofnun auglýsti nýja tillögu opinberlega á tímabilinu 6. janúar til 3. mars 2011 og lá hún frammi á skrifstofu Djúpavogshrepps á sama tíma.

Ein athugasemd barst um tillöguna. Skipulagsstofnun benti á að ekki væri kveðið ítarlega á um ráðstafanir vegna fisks sem sleppur úr kvíum. Umhverfisstofnun svaraði athugasemdinni þannig að heimildir stofnunarinnar til afskipta af málaflokknum væru takmarkaðar við mengunarmál og vísaði stofnunin þar í úrskurði umhverfisráðherra í sambærilegum tilfellum. Þó taldi stofnunin mögulegt að koma dálítið inn á málið út frá sjórnarhorni mengunarmála og var því ákveðið að breyta lítillega texta leyfisins.

Auk þessa voru gerðar smávægilegar breytingar frá auglýstri tillögu, þar sem samræmis var gætt við nýlega útgefin starfsleyfi. Einnig má nefna að óskað var eftir því við Djúpavogshrepp að hann gerði grein fyrir lögmæti sjókvíaeldisins hvað skipulagsmál varðar. Djúpavogshreppur vísaði til samninga sveitarfélagsins við rekstraraðila og upplýsti að ekki hefði á sínum tíma verið talin ástæða til að gefa út sérstakt framkvæmdaleyfi vegna starfseminnar.

Nýja starfsleyfið gildir til 1. júlí 2027. Með gildistöku þessa starfsleyfis fellur úr gildi fyrra starfsleyfi HB Granda hf. frá 29. nóvember 2007, upphaflega gefið út til handa Salar Islandica ehf. fyrir fiskeldi í Berufirði.

Starfsleyfi HB Granda, Berufirði

Greinargerð með útgáfu starfsleyfis fyrir kvíaeldisstöð HB Granda hf. í Berufirði