Stök frétt

Kjötsósur eru matreiddar úr hökkuðu kjöti. Þær hafa þann kost að möguleikarnir eru nánast endalausir og flestir ættu að geta fundið sinn eigin "tón" við sósugerðina.

Kjötsósuna má bera fram með kartöflumús eða nota áfram til matreiðslu á hreindýralasagne.

Kjötsósa:
500 g hreindýrahakk
Zucchini (kúrbítur) u.þ.b. 200 g
Einn vænn rauðlaukur
Hvítlaukur 3 - 4 rif (eða u.þ.b. 30 g)
Tveir miðlungs stórir tómatar
250 g sveppir
Ein væn rauð paprika
Einn grænmetisteningur
Hreindýrakjötkraftur/soð
Rifsberjasulta
Hvítvínsedik

Krydd í kjötsósu:

1 tsk svört piparkorn
12 - 14 einiber
_ tsk rosmarín
1 tsk timíam (eða blóðberg)
1 tsk basilicum
1 msk paprikuduft
Ögn af chili (gjarnan fínt skorin ferskur chili)
Lárviðarlauf

Zucchini, rauðlaukur og hvítlaukur er hakkað frekar fínt (skorið fínt með hníf eða verkað í grænmetishakkara). Það sama er gert við endana á paprikunni. Miðja paprikunnar er skorin í 3 - 4 mm þykkar ræmur. Sveppirnir eru skornir í skífur. Grænmetið er steikt (stir-fried) á Wok-pönnu í ólífuolíu í hentugum skömmtum og sett í pott að steikingunni lokinni. Paprikuræmurnar eru þó teknar frá og bætt í réttinn síðar.

Hreindýrahakkið er einnig steikt á Wok-pönnu í ólífuolíu og sett í sama pott og grænmetið að steikingunni lokinni.

Tómatarnir eru settir í hentugt ílát (skál), sjóðandi vatni hellt yfir, þeir fláðir og bætt í pottinn. Á þessu stigi er skynsamlegt að mauka tómatana með trésleif.

Hreindýrasoði og grænmetistening er bætt við og kynnt undir pottinum (ef hreindýrasoð er ekki til staðar má bæta það upp með grænmetis-, sveppa-, nauta- og/eða kjúklingakjötkrafti). Hrært er í annað slagið á meðan rétturinn er að hitna upp að suðumarki.
Þegar rétturinn er orðin vel heitur er kyddið sett út í. Piparkornin eru möluð og einiberin kramin áður en þeim er bætt í réttinn.

Kjötsósan er nú látin malla við vægan hita í u.þ.b. 30 mínútur á meðan hrært er upp í henni með reglulegu millibili. Á þessu stigi ber að smakka sósuna og krydda frekar ef ástæða þykir til.

Þegar sósan er orðin góð á bragðið er bætt út í 1 - 2 teskeiðum af rifsberjasultu. Að lokum er hvítvínsediki bætt út í dropatali þar til kokkurinn er ánægður með árangurinn.

Kjötsósan er látin sjóða áfram í u.þ.b. 10 mínútur. Þá er paprikuræmunum bætt út í og sósan soðin í 20 mínútur til viðbótar.

Fara skal varlega með sultuna ef ætlunin er að nota hana í lasagne því sykur passar ekki vel við lasagnerétti og hætta er á að sultubragðið verði of áberandi. Sé hins vegar ætlunin að borða kjötsósuna með kartöflumús má nota sultu eftir behag.