Stök frétt

Fyrir fjóra

Hráefni
1 stykki hreindýralund
salt og pipar
timian lauf
3 cl púrtvín
2 plötur smjördeig flatt út
villisveppir - duxelle (lagðir í bleyti í púrtvín smá stund)
1 dl villibráðasoð (vatn og villikraftur frá Oscari)

Aðferð
Snyrtið lundina og kryddið með salti, pipar og niðurskornu timian.
Snöggsteikið lundina í olíu á vel heitri pönnu og lokið henni, kælið hana síðan.
(Athugið þetta er hægt að gera deginum áður en lundin er notuð). Þegar búið er steikja lundina er villibráðasoðinu hellt á pönnuna og skófin soðin upp, sett í skál og geymt.

Vefjið kalda lundina og villisveppunum í smjördeigið og berið á það eggjarauðu, bakið í 100° heitum ofni í 25 - 30 mín, hækkið síðan hitann í 200° í smá stund til að brúna deigið.

Sósan
Setjið soðið af pönnunni og púrtvínið í pott með salti pipar og villibráðakryddi (pottagöldrum) og sjóðið, þykkið síðan með maismjöli hrærðu út í smá vatni. Sjóðið sósuna í 2-3 mínútur, bætið þá smá klípu af smjöri út í eftir það má sósan ekki sjóða.

Berist fram með brúnuðum kartöflum og gljáðu grænmeti.

Skreytt með timian laufi og rifsberjum.