Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur látið vinna hagfræðilega greiningu á nýtingu vatns. Greiningin er tilraun til að leggja mat á hvers virði vatnið okkar er. Greiningin var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði í nýjum lögum um vatnastjórn.

Í greiningu Hagfræðistofnunar koma nokkrar athyglisverðar upplýsingar í ljós. Íslendingar nota mest vatn allra íbúa Evrópu eða 296 rúmmetra á hvern íbúa á ári og eiga jafnframt mestar ferskvatnsbirgðir eða 532 þúsund tonn á hvern íbúa. Rafmagn er framleitt að mestu með endurnýjanlegum orkugjöfum en vatnsaflsvirkjanir nota 42 milljarða rúmmetra af vatni við raforkuframleiðsluna. Um 98% landsmanna fá neysluvatn úr grunnvatni og 68% þjóðarinnar býr við fráveitukerfi þar sem skólp er meðhöndlað.

Heildartekjur vatnsveitna voru um 5,5 milljarðar árið 2009, hitaveitna um 9 milljarðar, tekjur af fráveitustarfsemi námu um 5 milljörðum og tekjur af raforkusölu námu um 46 milljörðum króna á sama tíma. Verðmæti lax- og silungsveiði er áætlað 11,6 til 13,5 milljarðar á verðlagi ársins 2010.

 

Skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má nálgast hér í pdf formati.