Stök frétt

Norska veiðistjóraembættið hefur gert fjórar viðamiklar rannsóknir meðal veiðimanna sem ná yfir fimm ára tímabil. Fyrir skemmstu var birt samantektarskýrsla sem dregur saman helstu niðurstöður fjögurra rannsókna sem liggja að baki. Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar fyrir íslenska hreindýraveiðimenn í ljósi þess að engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi. Í mörgum tilfellum má heimfæra niðurstöðurnar á íslenska veiðimenn enda aðstæður í flestu tilliti sambærilegar hér og í Noregi. Helst er sá meginmunur að mönnum er ekki skilt að hafa með sér leiðsögumann á hreindýraveiðum í Noregi, heldur er mönnum úthlutað ákveðnum dögum.

Gögnin sem niðurstöðurnar byggjast á koma frá veiðimönnum sem skutu hreindýr, elgi og hjartardýr. Farið var í saumana á afdrifum 12.000 skota á veiðum og er því um viðamikil gögn að ræða. Veiðimennirnir sem tóku þátt í rannsókninni höfðu að meðaltali 20 ára veiðireynslu. Eftirfarandi niðurstöður eiga því við um reynsluríka veiðimenn.

Fyrst og fremst voru áhrif fyrsta skots veiðimanns á bráðina rannsökuð. Markmiðið var að rannsaka hvaða aðstæður á veiðum leiða helst til feil- og skaðaskota.

Niðurstöðurnar sýna að langt skotfæri, skot á dýr sem er á hreyfingu og skot á dýr sem snýr óheppilega að skyttunni eru mjög krefjandi. Niðurstöðurnar sýna ennfremur að beint samhengi er á milli veiðireynslu, æfingaskotafjölda og þess hvernig gengur á veiðum. Þeir sem hafa æft við fjölbreyttar aðstæður fella frekar en aðrir dýrið í fyrsta skoti.

7% feil- eða skaðaskot á hreindýraveiðum

Samkvæmt norsku niðurstöðunum eru 10% fyrsta skots á elg feilskot, 8% fyrsta skots á hjartardýr eru feil- eða skaðaskot og 7% fyrsta skots á hreindýr. Þetta eru þær niðurstöður sem veiðimenn gáfu upp í skýrslum. Aðspurðir um það hvort þeir sjálfir hefðu orðið vitni að feilskoti annarra reyndist hlutfallið hærra. Það má því færa rök fyrir að hér sé um lágmark að ræða.

Hlutfall feil- og skaðaskota lækkar fyrst og fremst með auknum æfingum og rannsóknirnar sýndu allar að beint samhengi var á milli æfingaskotafjölda og lækkandi líkum á feil- og skaðaskotum. Æfingar gera veiðimanninn meðvitaðri um eigin takmarkanir og hjálpa honum að átta sig á því hvenær og við hvaða aðstæður ekki á að skjóta. Þrýstingur á veiðimann í formi tímapressu, fjölda veiðimanna í nágrenninu og fjölda veiðifélaga hafði sömuleiðis neikvæð áhrif á áðurnefnt hlutfall. 

Meðalskotfæri á hreindýr reyndist 90 m. Það voru fyrst og fremst reynslumestu veiðimennirnir sem skutu á meira en 150 m skotfæri. Engu að síður eykst hlutfall feil- og skaðaskota mikið eftir því sem skotfærið lengist, jafnvel hjá þeim veiðimönnum sem hafa mesta reynslu. Í 13% tilfella þurfti að fylgja fyrsta skoti eftir á hreindýraveiðum með því að skjóta aftur.

Með tvöföldun skotfæris fjórfaldast ákomusvæði kúlunnar.  Til að tvöfalda lengd skotfæris þarf skyttan s.s. að vera fjórum sinnum hæfileikaríkari.  Við þetta bætist fall kúlunnar og ytri áhrifaþættir sem aukast í takt við skotfærið.

Háls- og hryggskot

83% hreindýraveiðimanna miðuðu á hjarta- og lungnasvæðið þegar þeir tóku í gikkinn en í allri kennslu síðastliðinna 20 ára í Noregi hefur rík áhersla verið lögð á að það sé öruggasta skotmarkið. 13% ætlaðra hjarta- og lungnaskota hafnaði samt sem áður ekki á tilætluðum stað.

Eitt af hverjum þremur skotum sem miðað var á hrygg eða háls endaði annarsstaðar í dýrinu. Rannsókn frá 2006 sýndi að þetta hlutfall gat verið allt að helmingur.  Í sumum tilfellum var skotið á dýr á hreyfingu eða um að ræða tilraun til að gera ráð fyrir falli kúlunnar vegna langs skotfæris.

Breidd hálsliða á kálfi er einungis 3 sm sem samsvarar breidd eldspítustokks. Breidd hálsliða á fullorðnu dýri er um 6 sm en það sem veiðimaðurinn sér eru breiður háls og feldur en ekki nákvæm staðsetning hálsliða. Þannig er um að ræða agnarsmátt skotmark og ágiskun á staðsetningu. Hafni kúla sem miðað er á hálsliði 3-5 sm of neðarlega fer hún í gegnum barkakýlið eða hálsinn með tilheyrandi skaða. Þeir sem reyna háls og hryggskot eru samkvæmt þessu að treysta á heppni, á kostnað dýrsins.

Hjarta- og lungnasvæðið á hreindýri er um 20 sm að stærð. Ef miðað er í miðju svæðisins hefur kúlan einungis 10 sm svigrúm til að þjóna sínu hlutverki áreiðanlega. Á veiðum gerist margt óvænt og því þarf að gera ráð fyrir að kúlan fari nokkra sentimetra af leið.  Afstaða dýrsins gagnvart sjónarhorni veiðimannsins reyndist ráða miklu um það hversu krefjandi skotið var. Auðveldast er að skjóta dýr sem snýr hliðinni að veiðimanni þannig að allt hjarta- og lungnasvæðið sjáist, en eftir því sem afstaða dýrsins skáast meira frá veiðimanninnum verður áreiðanlegt skot erfiðara.

Samhengi á milli fjölda æfingaskota og færri feilskota

Það þarf ekki að koma neinum á óvart, en gott að sjá það í niðurstöðunum að æfingar á skotsvæði skila augljósum árangri í færri feil- og skaðaskotum. Feil- og skaðaskotahlutfall þeirra sem skutu færri en 100 æfingaskotum fyrir veiðiferð var 6,8%. Hlutfallið var hinsvegar helmingi lægra hjá þeim sem skutu fleiri en 100 æfingaskotum eða 3,5%. Það er í ljósi þessa sem norskir veiðimenn fá ekki veiðileyfi nema framvísa vottun um að þeir hafi skotið a.m.k. 30 æfingaskotum auk þess að hafa staðist skotpróf á hverju ári. Rík áhersla er lögð á að menn æfi sig umfram lágmarkskröfur áður en haldið er til veiða.

Hreindýraveiðimenn voru spurðir í hvaða stellingu þeir hefðu æft sig. Allir höfðu æft liggjandi stöðu, 60% sitjandi og 40% standandi. Samkvæmt niðurstöðunum var mjög mikilvægt er að veiðimenn hefðu æft sig í þeirri stellingu sem þeir notuðu á veiðum. Þegar á veiðar kom höfðu einungis 6% elgveiðimanna skotið úr liggjandi stellingu, 20% hjartardýraveiðimanna en 80% hreindýraveiðimanna skutu úr liggjandi stellingu á veiðum. Það voru þvi helst hreindýraveiðimenn sem höfðu æft þær stellingar sem notaðar voru á veiðum.

Streita veiðimannsins

Framkvæmd veiðanna skiptir miklu máli. Norsku rannsóknirnar sýna að samhengi er á milli fjölda veiðimanna sem veiða saman og hlutfalls feil- og skaðaskota. Hlutfall feil- og skaðaskota hjá hjartardýra- og elgveiðimönnum sem veiddu einir var 5,7% og 5,1%. Hlutfallið hjá elgveiðimönnum hækkaði í 10,7% og 12,1% hjá hjartardýraveiðimönnum þegar fjöldi þeirra á sama svæði varð 8 eða fleiri. Orsökin er sú að fleiri veiðimenn á svæðinu koma meiri hreyfingu á dýrin og þannig aukast líkurnar á að skotið sé á dýr sem er á hreyfingu. Dýrin þjappa sér í sumum tilfellum saman, hætta eykst á að skot hafni í dýrum sem standa til hliðar eða í baksviði og streita eykst hjá veiðimanninum.

Veiðimönnum í Noregi er úthlutað ákveðnum dögum og fær hver veiðimaður nokkra daga til að fella sitt dýr auk þess sem um er að ræða ákveðna daga sem eru sameiginlegir. Hlutfall feil- og skaðaskota hækkar þegar menn vita að tími þeirra er á þrotum. Einn af hverjum fimm veiðimönnum segist hafa upplifað það á síðastliðnu veiðitímabili að annar veiðimaður hafi truflað sig við veiðarnar. Ekki er ólíklegt að heimfæra megi þessar niðurstöður um streituáhrif á íslenska veiðimenn þó með öðrum hætti sé.

Feilskotahlutfall fimmfaldast eftir 150 m

Að meðaltali voru norskir hreindýraveiðimenn að skjóta á 90 metra færi.  Mikill meirihluti veiðimanna skaut úr liggjandi stellingu og því gekk flestum vel. Sumir veiðimenn skutu á lengri færum en flestir héldu sig innan forsvaranlegs skotfæris samkvæmt skýrslunum.

  • 27% allra skota voru skotin á meira en 100 m færi.
  • 7% allra skota voru skotin á meira en 150 m færi.
  • 1% allra skota voru skotin á meira en 299 m færi.

Alls voru 2,8% allra skota sem skotin voru á innan við 100 m færi feil- eða skaðaskot. Hlutfallið tvöfaldaðist á milli 100-150 m og fimmfaldaðist eftir 150 m. Viðhorfið sem leggja skal áherslu á er að það sé góður veiðimaður sem kemur sér í stutt skotfæri, ekki sá sem treystir á heppni í langskotum.

Einar Guðmann

Sérfræðingur, Umhverfisstofnun

Heimildir

Bjarne Oppegård, Tore Andestad 2009. Bedre jakt pá hjort, elg og villrein, Bedrejakt.no. Direktorated for naturforvaltning og Norges Jeger- og Fiskerforbund 2009.

Tore Andestad 2009, Raumaprosjektet 2009, Hvor gode er vi? Bedrejakt.no. Norges Jeger- og Fiskerforbund, 2009.

Tore Andestad 2009. Hva er for langt? Om skuddafstand og reinsjegere. Bedrejakt.no. Norges Jeger- og Fiskerforbund, 2009.

Tore Andestad 2009. Hvor plasserer du kula i villreinen? Bedrejakt.no. Norges Jeger- og Fiskerforbund, 2009.

Tore Andestad 2009. Skuddplassering - nakke eller lunge? Bedrejakt.no. Norges Jeger- og Fiskerforbund, 2009.

Tore Andestad 2009. Skytestillinger. Bedrejakt.no. Norges Jeger- og Fiskerforbund 2009.