Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson
Alls fjögur frávik frá starfsleyfi komu fram við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar með urðunarstað Skaftárhrepps á Stjórnarsandi árið 2011. Umhverfisstofnun hóf eftirfylgni vegna frávikanna snemma á þessu ári. Skaftárhreppi var veitt áminning þann 16. júlí sl. fyrir að hafa ekki lokið úrbótum á frávikunum, en áður samþykkt úrbótaáætlun sveitarfélagsins gerði ráð fyrir úrbótum vegna þriggja af fjórum frávikum yrði lokið fyrir 15. maí 2012. Þann 4. september áformaði Umhverfisstofnun að leggja á dagsektir fyrir öll fjögur frávikin þar sem svör höfðu ekki borist frá Skaftárhreppi og þann 3. október sl. var tekin ákvörðun um álagningu dagsekta frá og með 15. október vegna tveggja frávika þar sem Skaftárhreppur hafði þá staðfest úrbætur á einu fráviki og mæliniðurstöður er varða annað frávik voru þá væntanlega innan fárra daga.
Skaftárhreppur brást við yfirvofandi dagsektum og daginn sem álagning dagsekta átti að hefjast höfðu fullnægjandi úrbætur vegna þriggja af fjórum frávikum verið staðfestar, og úrbætur vegna síðasta fráviksins voru þá vel á veg komnar. Umhverfisstofnun ákvað þá að fresta álagningu dagsekta vegna síðasta fráviksins til 1. nóvember nk. til að gefa Skaftárhreppi svigrúm til að ljúka úrbótum að fullu.