Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, staðfesti friðlýsingar Álafoss og Tungufoss og nánasta umhverfis þeirra í Mosfellsbæ í gær, á sumardaginn fyrsta. Markmiðið með friðlýsingunum er að treysta útivistar- og fræðslugildi svæðanna enda eru þau fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum. 

Álafoss er í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni. Hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð og nær yfir fossinn, töluvert svæði ofan og neðan hans og einnig skóglendi í svonefndu Álanesi sem er einn af eldri skógum bæjarins.

Tungufoss er neðarlega í Köldukvísl í Mosfellsbæ, á móts við Leirvogstungu og dregur fossinn nafn sitt af bæjarnafninu. Við Tungufoss má sjá leifar af heimarafstöð sem var reist árið 1930 af bóndanum í Leirvogstungu og bræðrum hans og framleiddi stöðin rafmagn fyrir bæinn fram til ársins 1958. Tveir fallegir hylir eru neðan við Tungufoss: Kerið, sem er beint fyrir neðan fossinn, og Klapparhylur litlu neðar. Nærsvæði fossins er vinsælt til útivistar en hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð. 

Við sama tækifæri undirrituðu Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, samstarfssamning um umsjón hinna friðlýstu svæða.