Stök frétt

Samstarfshópur um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur skilað úttekt á framkvæmd áætlunarinnar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Losun á Íslandi dróst saman um 9% frá 2008 til 2010, en losunin 2010 var um 5% lægri en áætlunin gerði ráð fyrir það ár. Losun hefur dregist saman eða staðið í stað í flestum geirum á tímabilinu, en hins vegar er binding kolefnis úr andrúmslofti minni en gert var ráð fyrir, sem má rekja til samdráttar í ríkisframlögum til skógræktar og landgræðslu. 

Í skýrslu samstarfshópsins er fjallað um þróun losunar miðað við markmið um samdrátt fram til 2020, en einnig er fjallað um framgang aðgerða til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Í hópnum eiga sæti fulltrúar fimm ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga og ber honum að skila árlega skýrslu til ráðherra. 

Í skýrslunni segir að athygli veki samfelldur samdráttur í losun frá samgöngum frá 2007, en losun þar hafi aukist verulega árin þar á undan. Verulegur samdráttur er einnig í losun frá byggingarstarfsemi og skyldri starfsemi. Aukning í losun frá sjávarútvegi milli 2008 og 2009 gekk til baka árið 2010. Losun í flestum geirum er á „grænu ljósi“ eða „gulu ljósi“ skv. mati hópsins, en það þýðir að losun sé minni en ráð var fyrir gert eða aðeins lítillega meiri. Eini geirinn sem er á „rauðu ljósi“ er skógrækt og landgræðsla, sem skilar minni kolefnisbindingu en ráð var fyrir gert. Skýringin á því er einkum samdráttur í ríkisframlagi í kjölfar bankahrunsins, sem hefur leitt til minni umfangs aðgerða. Afleiðingar hrunsins má líklega einnig sjá í öðrum geirum, sem endurspeglast m.a. í mikilli minnkun losunar frá byggingarstarfsemi. 

Þótt efnahagsástandið skýri marga þætti í þróun losunar og kolefnisbindingar eru þó teikn á lofti um að loftslagsvæn tækni og lausnir séu að ryðja sér til rúms á sumum sviðum og má þar nefna rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og þróun í samgöngum. Tvær fiskimjölsverksmiðjur munu væntanlega taka rafskautskatla í notkun á þessu ári og tvær aðrar eru að undirbúa slíkt í stað þess að brenna olíu. Fjöldi hjólandi vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu hefur rúmlega tvöfaldast frá 2009 og farþegum í almenningssamgöngum hefur fjölgað. Metanbílum hefur fjölgað, en hlutfall bifreiða sem nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti er þó mjög lágt, eða undir 1%. Samstarfshópurinn hvetur til þess að hlúð sé að nýsköpunarverkefnum á sviði loftslagsvænnar tækni, sem hann segir að mikil gróska sé í hér á landi.