Stök frétt

Þann 11. júlí nk. tekur gildi ný reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur. Með reglugerðinni er viðhaldið fyrri kröfum um merkingar, umbúðir og innihaldsefni en ítarlegri kröfur eru nú gerðar til framleiðenda og dreifingaraðila snyrtivara þegar kemur að því að sýna fram á öryggi snyrtivara og að þær verði innkallaðar ef öryggi neytandans er ekki tryggt.

Framleiðendur og innflytjendur snyrtivara skulu nú tilkynna til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um fyrstu markaðssetningu snyrtivöru á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er gert í gegnum sérstaka vefgátt og fara upplýsingar í samevrópskan gagnagrunn um snyrtivörur. Þeir skulu jafnframt sjá til þess að snyrtivörur gangist undir öryggismat áður en þær fara á markað. Framleiðsla snyrtivöru skal fylgja góðum framleiðsluháttum og aðeins með starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu. Engar dýratilraunir verða heimilaðar á snyrtivörum eða innihaldsefnum þeirra.

Reglugerðin byggir á reglugerð Evrópusambandsins nr. 1223/2009. Umhverfisstofnun mun hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar.