Stök frétt

Að gefnu tilefni vill Umhverfisstofnun vekja athygli á ákvæðum 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem segir: 

Óheimilt er frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ítrustu varfærni og forðist að trufla fuglana. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.

Ástæða framangreindrar bannreglu er sú að örninn, sem er alfriðaður hérlendis, getur verið viðkvæmur fyrir truflun á varptíma og hætta getur verið á því að varp misfarist verði fuglinn endurtekið fyrir slíku áreiti. 

Ítrekað skal að framangreint bann er fortakslaust, nema þá að um sé að ræða það sem kalla má hefðbundnar nytjar sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma. Þessi undantekning getur t.a.m. átt við um hefðbundinn landbúnað og nytjar svo sem dún- og eggjatöku en hún á ekki við um siglingar með ferðamenn eða aðra ferðaþjónustu. Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá banninu sé sótt um hana fyrirfram. 

Berist Umhverfisstofnun upplýsingar þess efnis að brotið hafi verið gegn umræddu ákvæði má búast við að málinu verði vísað til lögreglu. Brot gegn lögum 64/1994 um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Virða skal það refsingu til þyngingar ef um sjaldgæfar eða fágætar fuglategundir er að ræða.