Stök frétt

Nýtnivikan verður haldin hér á landi dagana 16. - 24. nóvember en markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Vikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur. 

Daglegar venjur hvers og eins hefur áhrif á umhverfið. Til dæmis er hægt að draga verulega úr pappírsúrgangi með því að afþakka fjöldapóst, endurnýta gjafapappír og draga úr prentun.

Umhverfisstofnun tekur þátt í Nýtnivikunni auk Kvenfélagasambands Íslands, Neytendasamtökunum, Sorpu, Landvernd ásamt sveitarfélögum á Íslandi og í Evrópu. Vikan verður helguð meiri nýtni á pappír og að dregið sé úr myndun pappírsúrgangs. Vikan er líka tækifæri okkar til að skora á sveitarfélög, fyrirtæki, vini og ættingja til að vinna verkefni sem tengjast nýtni og draga úr bruðli og úrgangi í samfélaginu. Umhverfisstofnun hvetur til betri nýtingu hluta og vitundarvakningar um að nýta og njóta þess sem í kringum okkur er.

Tengt efni