Stök frétt

Nýlega stóð Umhverfisstofnun fyrir könnun meðal sveitarfélaga og rekstraraðila sem starfa í úrgangsgeiranum. Tilgangur könnunarinnar var að athuga hvort að vilji sé hjá þessum aðilum til að koma á samræmdri flokkun heimilisúrgangs á landsvísu, einkum í ljósi tillögu að markmiði þess efnis sem sett er fram í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024. Könnunin var gerð í samráði við umhverfis– og auðlindaráðuneytið og Fagráð um endurnýtingu og úrgang (FENÚR). 

Könnunin var send til 94 viðtakenda og þeim boðið að taka þátt. Opið var fyrir þátttöku á tímabilinu 23. september – 8. október 2013. Viðtakendurnir skiptust í 74 sveitarfélög og 20 rekstraraðila sem starfa í úrgangsgeiranum. Rekstraraðilarnir skiptust í einkaaðila annars vegar og hins vegar í byggðasamlög og hlutafélög í eigu sveitarfélaga. Svör bárust frá 33 og var svarhlutfall því rúmlega 35%. Af þeim sem svöruðu könnuninni létu 42% í ljós vilja til samræmdrar flokkunar af einhverju tagi, 18% létu ekki í ljós vilja og 39% tóku ekki afstöðu (mynd 1). Ef litið er framhjá þeim sem svöruðu könnuninni en létu ekki í ljós afstöðu reyndust 70% svarenda hafa vilja til samræmdrar flokkunar af einhverju tagi en 30% ekki (mynd 2). Niðurstaðan er vísbending um að þeir sem bera ábyrgð á og koma að söfnun heimilisúrgangs í landinu hafi vilja til að koma á samræmdri flokkun af einhverju tagi.

 

Skífurit sem sýnir svör þátttakenda við spurningunni „Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“. Skífurit sem sýnir svör þeirra þátttakenda sem tóku afstöðu til spurningarinnar „Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“.
 Mynd 1: Svör þátttakenda við spurningunni
„Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir
samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“.
  Mynd 2: Svör þeirra þátttakenda sem tóku afstöðu til spurningarinnar
„Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir
samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“. 
 

Mismunur á afstöðu sveitarfélaga og einkaaðila 

Ef svör þátttakenda eru sundurliðuð eftir því hvort um er að ræða sveitarfélög, byggðasamlög og hlutafélög í eigu sveitarfélaga eða einkaaðila kemur í ljós mismunur á afstöðu þessara tveggja hópa (mynd 3). Ef eingöngu eru skoðuð svör sveitarfélaga, byggðasamlaga og hlutafélaga í eigu sveitarfélaga kemur í ljós að af þeim sem tóku afstöðu hafa 87% vilja til samræmdrar flokkunar en 13% ekki. Ef eingöngu eru skoðuð svör einkaaðila kemur hins vegar í ljós að 20% þeirra sem tóku afstöðu hafa vilja til samræmdrar flokkunar en 80% ekki. Þessi niðurstaða bendir til að sveitarfélögin og félög á þeirra vegum hafi skýrari vilja til að koma á samræmdri flokkun af einhverju tagi, heldur en þeir einkaaðilar sem starfa í úrgangsgeiranum.

Stöplarit sem sýnir sundurliðuð svör þeirra þátttakenda sem tóku afstöðu til spurningarinnar „Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“ Svörin eru sundurliðuð eftir því hvort um er að ræða sveitarfélög, byggðasamlög eða hlutafélög í eigu sveitarfélaga annars vegar eða einkaaðila hins vegar.

Mynd 3: Sundurliðuð svör þeirra þátttakenda sem tóku afstöðu til spurningarinnar
„Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“
Svörin eru sundurliðuð eftir því hvort um er að ræða sveitarfélög, byggðasamlög eða
 hlutafélög í eigu sveitarfélaga annars vegar eða einkaaðila hins vegar. 

Ástæða þess að niðurstöðurnar eru sundurliðaðar með þessum hætti, í stað þess að skipta svarendum upp í sveitarfélög annars vegar og rekstraraðila hins vegar, er sú að hér er gert ráð fyrir að afstaða byggðasamlaga og hlutafélaga í eigu sveitarfélaga endurspegli vilja sveitarfélaganna sem að þeim standa. Í einungis einu tilfelli tóku hvort tveggja sveitarfélag og byggðasamlag sem viðkomandi sveitarfélag er aðili að afstöðu til spurningarinnar. Því er ekki hætta á að þessi aðferðafræði feli í sér að afstaða sveitarfélaga verði tvítalin. 

Vilji er til að ganga nokkuð langt í samræmdri flokkun 

Þeir þátttakendur sem svöruðu spurningunni um vilja til samræmdrar flokkunar játandi höfðu möguleika á að láta í ljós afstöðu sína til þess hversu langt ætti að ganga við samræminguna. Ef skoðuð eru svör þeirra kemur í ljós að 21% telur rétt að samræma litakerfi og flokkunarmerkingar sorpíláta en 71% telur að ganga eigi lengra en það, t.d. með því að samræma fjölda sorpíláta við hvert heimili (mynd 4). Hvorugan kostinn völdu 7% þátttakenda. Þessi niðurstaða verður að teljast vísbending um að vilji sé, einkum hjá sveitarfélögunum, til að ganga nokkuð langt við að samræma flokkun heimilisúrgangs á landsvísu.

Skífurit sem sýnir afstöðu þeirra þátttakenda sem svöruðu spurningunni „Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“ játandi. Gefnir voru þrír valmöguleikar: „Samræma litakerfi og flokkunarmerkingar sorpíláta“, „Ganga lengra en að samræma litakerfi og flokkunarmerkingar sorpíláta, t.d. samræma fjölda sorpíláta við hvert heimili“ og „Ekkert valið“.

Mynd 4: Afstaða þeirra þátttakenda sem svöruðu spurningunni
„Er vilji hjá sveitarfélagi/rekstraraðila fyrir samræmdri flokkun heimilisúrgangs af einhverju tagi?“ játandi.
Gefnir voru þrír valmöguleikar: „Samræma litakerfi og flokkunarmerkingar sorpíláta“,
„Ganga lengra en að samræma litakerfi og flokkunarmerkingar sorpíláta,
t.d. samræma fjölda sorpíláta við hvert heimili“ og „Ekkert valið“.