Stök frétt

Höfundur myndar: Gísli Jónsson

Umhverfisstofnun hefur veitt Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum starfsleyfi fyrir rekstur fiskimjölsverksmiðju við Hafnargötu 2 í Vestmannaeyjum. Nýja leyfið veitir heimild til að framleiða úr allt að 1.200 tonnum af hráefni á sólarhring, líkt og eldra starfsleyfi verksmiðjunnar sem er nú fallið úr gildi. 

Tillaga að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna var auglýst á tímabilinu 19. maí til 9. júlí 2014. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Heilbrigðisnefnd Suðurlands, Slökkviliðs Vestmannaeyja, Skipulagsstofnun og Vinnueftirlitinu. 

Umhverfisstofnun bárust athugasemdir við tillöguna frá Heilbrigðisnefnd Suðurlands sem komu að gagni við áframhaldandi vinnslu starfsleyfisins. Þar ber helst að nefna breytingu á grein 3.2 en þar hafði orðalag um að mælingar skuli gerðar þegar verksmiðjan er í fullri vinnslu, fyrir mistök horfið úr textanum. Sá texti er nú kominn inn í greinina. 

Að auki gerði Umhverfisstofnun breytingar á texta starfsleyfis að eigin frumkvæði en í grein 2.3 er nú talað um afskurð og aukaafurðir í stað fiskúrgangs og sá Umhverfisstofnun sér fært að breyta þessu orðalagi eftir breytingar á lögum 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sem samþykktar voru á Alþingi 16. maí 2014. 

Einnig var bætt við grein 1.10 sem fjallar um umhverfisábyrgð en í samræmi við lög um umhverfisábyrgð nr.55/2012 þá ber rekstraraðili ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum atvinnustarfsemi. 

Nánari upplýsingar um meðferð athugasemda eru í greinargerð sem fylgir fréttinni. 

Nýja starfsleyfið öðlaðist gildi 17. september sl. og gildir til 17. september 2030. 

Tengd gögn