Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Margar algengar vörur sem þú notar í daglegu lífi gætu verið meðhöndlaðar, tilgangurinn með því gæti t.d. verið að verja þær fyrir skemmdum af völdum skordýra og örvera þegar flytja þarf þær langar leiðir. Þetta gæti meðal annars átt við um húsgögn, vefnaðarvörur, fatnað o.fl. Sjaldgæft er að það komi fram að slíkar vörur hafi verið meðhöndlaðar með virkum efnum. Annar hópur meðhöndlaðra vara eru þær þar sem virku efni hefur verið komið fyrir í vörunni til að sýna fram á að hún hafi eiginleika umfram aðrar sambærilegar vörur. Þetta gæti til dæmis átt við um nærfatnað sem dregur úr líkamslykt vegna meðhöndlunar með virku efni sem fullyrt er að komi í veg fyrir bakteríuvöxt.

Eitt stærsta vandamálið varðandi notkun meðhöndlaðra vara með sæfandi eiginleika á heimilum og í tómstundastarfi er að hún hefur í för með sér óþarfa efnanotkun og veldur þannig auknu álagi á bæði samfélagið og umhverfið. Með þvotti á meðhöndluðum íþróttafatnaði skolast virku efnin úr honum og fara út í umhverfið. Ætíð ætti að hafa í huga að þessi efni geta verið hættuleg lífverum almennt.

Sem neytandi, ættir þú að vera meðvitaður um að meðhöndlaðar vörur innihalda virk sæfandi efni sem eru hönnuð til að berjast gegn lífverum. Þetta eru efni sem geta einnig verið skaðleg heilsu fólks og umhverfi. Það er því góð hugmynd að að íhuga alltaf hvort þú getur leyst vandamálið á annan hátt en með því að nota meðhöndlaða vöru með sæfandi eiginleika. 

Án þess að þú gerir þér grein fyrir því gætir þú verið að stuðla að myndun þolnra baktería.  Forðastu að nota vörur með orðum eins og bakteríudrepandi og myglueyðandi (“odourless”, “antibacterial” og mould repellent”). Þessar vörur eru meðhöndlaðar með virkum efnum sem eru ætluð til þess að drepa lifandi verur.

„Rannsóknir sýna að virku efnin í svona vörum losna á endanum úr þeim og dreifast út í umhverfið.  Á endanum geta þessar meðhöndluðu vörur gert meiri skaða heldur en gagn fyrir heilsu fólks og umhverfið“, segir Elín Ásgeirsdóttir, sérfræðingur á Umhverfisstofnun.

Sjá nánar