Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lagt stjórnvaldssekt á flugfélagið Tunisair Express að upphæð 45.642 evra vegna vanrækslu flugrekanda á að standa skil á nægjanlegum fjölda losunarheimilda fyrir árið 2013, en síðasti dagur til þess að gera upp þær losunarheimildir var 30. apríl 2015. Stjórnvaldssektin var sett á í samræmi við 43. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan ESB. Umhverfisstofnun sendi Tunisair Express áform um aðgerðir þann 23. október 2015 og ákvörðun um aðgerðir þann 17. desember 2015. Stjórnvaldssektin var í kjölfarið lögð á flugrekandann þann 22. janúar síðastliðinn.

Tunisair Express hefur rétt á að skjóta þessari ákvörðun Umhverfisstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til og með 22. apríl næstkomandi.

Greiðsla sektarinnar hefur ekki áhrif á skyldu flugrekanda til að standa skil á þeim fjölda losunarheimilda sem uppá vantar og ber þeim að skila inn losunarskýrslu fyrir árið 2013, stofna reikning í skráningarkerfi með losunarheimildir og kaupa og gera upp tilskilinn fjölda losunarheimilda.

Tunisair Express er flugfélag frá Túnís sem  fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og Ísland hefur umsýslu með, í samræmi við  lista Framkvæmastjórnar ESB þar um.