Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir til umsagnar tillögu að aðgerðaáætlun um meðferð varnarefna sem umhverfis- og auðlindaráðherra gefur út til 15 ára. Veittur er frestur til 29. mars 2016 til þess að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna til Umhverfisstofnunar.

Aðgerðaáætlunin nær til markaðssetningar og notkunar á plöntuverndarvörum og er þetta í fyrsta sinn sem slík áætlun er útbúin hér á landi. Í áætluninni er tekið saman hversu mikið af plöntuverndarvörum er sett á markað, í hvaða ræktun þær eru notaðar og af hverjum, auk þess sem fram kemur samanburður við notkun á plöntuverndarvörum í öðrum löndum.

Í tillögunni eru sett fram 15 markmið varðandi notkun á plöntuverndarvörum fyrir tímabilið 2016-2031 og áhættuvísar. Áhættuvísarnir gera m.a. ráð fyrir að heildarmagn plöntuverndarvara sem settar eru á markað fari ekki yfir sem samsvarar 3 tonnum af virku efnum á ári og að notkun á landbúnaðarland haldist undir 0,04 kg af virku efni á hver ha á ári. Þá er gert ráð fyrir því að markvisst verði unnið að því á tímabilinu að taka upp varnaraðgerðir gegn skaðvöldum sem ekki byggjast á notkun efna og að taka upp samþættar varnir eftir því sem kostur er. Allir þeir sem láta sig málið varða eru hvattir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en drögin verða send ráðherra.

  • Texta áætlunarinnar má nálgast hér