Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda fyrir árið 2016 í samræmi við 12. og 18. gr. laga um loftslagsmál nr. 70/2012.

Alls var úthlutað 1.385.754 losunarheimildum í iðnaði og 194.375 losunarheimildum í flugi, samtals 1.580.129 losunarheimildum.

Úthlutunin í iðnaði byggir á reglugerð nr. 73/2013, um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila staðbundinnar starfsemi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sem er hún í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB 2011/278/ESB.

Úthlutunin í flugi byggir á reglugerð nr. 1131/2011, um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda, sem er í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2011.

Í kjölfar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2014 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn var reglugerð (ESB) nr. 421/2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda, felld inn í samninginn. Breytingin hefur í för með sér tímabundna minnkun á  gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, eða frá 2013-2016. Þar af leiðandi fá þeir flugrekendur sem fengið hafa úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum færri heimildum úthlutað í hlutfalli við færri skuldbindingar um innskil á losunarheimildum á tímabilinu 2013-2016.