Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir Málningu hf. í Kópavogi. Rekstraraðili sótti um starfsleyfi þar sem fyrra starfsleyfi var að renna út.

Tillagan gerir ráð fyrir að heimilt verði að framleiða allt að 2,2 milljónir lítra af málningu og 150.000 lítra af þynnum ásamt 150.000 lítra af lími og lakki á ári í verksmiðjunni. Einnig verði heimilt að starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyrir beint undir starfsemina. Ekki er um að ræða að gerðar verði neina sérstakar breytingar á rekstrinum frá því sem verið hefur.

Við gerð starfsleyfis fyrir fyrirtæki af þessu tagi þarf helst að huga vel að frárennslismálum. Við gerð starfsleyfisins var farið ítarlega yfir þær kröfur. Safna skal saman notuðum leysiefnum, og forhreinsa vatn frá skolun og þrifum. Frárennsli úr framleiðslu og hreinsun skal leiða í gegnum tveggja hólfa setþró (fellitanka). Umhverfisstofnun fór einnig vel yfir skyldur fyrirtækisins á sviði efnamála og í starfsleyfistillögunni er minnt á ákvæði reglugerðar nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Einnig er bent á að sæfivörur þurfa markaðsleyfi þegar þær eru settar á markað og tilgreint er tímabundið leyfi sem Umhverfisstofnun veitti Málningu hf. árið 2013 til notkunar á málningaruppleysi sem inniheldur díklórmetan. Lagt er til að losunarmörk á ryki verði þau sömu og áður giltu í fyrra starfsleyfi en rekstraraðili hefur alltaf staðist þau mörk mjög vel. Í tillögunni er lagt til að mælingar á ryki verði á fjögurra ára fresti.

Tillagan mun liggja frammi til kynningar ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Kópavogsbæjar á tímabilinu 17. mars til 12. maí næstkomandi. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 12. maí 2016.

Ekki er fyrirhugað að halda kynningarfund um tillöguna. Umhverfisstofnun mun skoða það nánar ef áskoranir berast um kynningarfund.

Tengd skjöl