Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Sorpstöð Rangárvallarsýslu vegna móttöku- og flokkunarstöðvar og urðunarstaðar að Strönd. Með því fellur úr gildi eldra starfsleyfi urðunarstaðarins sem var gefið út 13. desember 2007.

Tillaga að starfsleyfinu var auglýst á tímabilinu 18. desember 2015 til 12. febrúar 2016. Ein umsögn barst á auglýsingatíma og kom hún frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Í henni voru ekki gerðar athugasemdir við leyfið, en bent á að greinar um áhættumat og viðbragðsáætlun, og einnig ábyrgðartryggingu vegna mögulegrar mengunar hafs og stranda, sbr. lög 33/2004, væri hugsanlega ofaukið í þessu samhengi vegna mikillar fjarlægðar urðunarstaðarins frá sjó. Umhverfisstofnun hefur breytt auglýstri tillögu til samræmis við þessa ábendingu. Ekki voru gerðar aðrar breytingar á starfsleyfinu frá auglýstri tillögu.

Starfsleyfið heimilar móttöku á allt að 6350 tonnum af úrgangi á ári, þar af eru 5200 tonn til meðhöndlunar á Strönd. Leyfið gerir ráð fyrir að urðunarstaðurinn sé tvískiptur. Í öðrum hlutanum verði tekið á móti óvirkum úrgangi og þar er veitt undanþága frá kröfum um jarðfræðilegan tálma og söfnun sigvatns. Í hinum hlutanum er heimilt að urða lífrænan úrgang og ber rekstraraðila að uppfylla þar kröfur um jarðfræðilegan tálma og sigvatnssöfnun, sem og kröfur um mælingar og söfnun á hauggasi. Nýti rekstraraðili heimild til jarðgerðar til fulls, þá fellur út heimilt til urðunar á lífrænum úrgangi. Starfsleyfið fjallar einnig um móttökustöð fyrir úrgang, en móttaka úrgangs sem er svo fluttur til urðunar annars staðar hefur á síðustu árum orðið umfangsmeiri hluti af rekstri Sorpstöðvarinnar.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 16. mars 2031.

Tengd skjöl