Stök frétt

Matarsóun er mikil á Vesturlöndum og erlendar rannsóknir benda til að heimilin eigi þar stóran hlut að máli. Upplýsingar hefur hins vegar skort um umfang matarsóunar íslenskra heimila. Nú er Umhverfisstofnun að fara á stað með rannsókn þar sem umfang matarsóunar á Íslandi verður skoðað. Rannsóknin er gerð með styrk frá EUROSTAT, Evrópsku hagstofunni og er tilgangur hennar að afla hagtalna um umfang matarsóunar hér á landi.

Rúmlega eitt þúsund heimili verða valin tilviljunarkennt úr Þjóðskrá til að taka þátt í könnuninni. Strax eftir páska mun starfsfólk Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hringja í þá sem lenda í úrtaki og staðfesta þátttöku. Þau heimili sem taka þátt verða beðin um að mæla þann mat og drykk sem fer til spillis á heimilinu í eina viku í apríl auk þess að svara stuttum spurningalista. Mælingin mun ekki einungis gagnast samfélaginu heldur einnig veita viðkomandi heimili upplýsingar um hvort og þá hve mikill matur fer til spillis. Upplýsingarnar er síðan hægt að nota til að draga úr matarsóun á heimilinu og um leið úr fjárútgjöldum þess. Umhverfið mun síðan sjálfkrafa njóta góðs af.

Umfang matarsóunar hjá íslenskum fyrirtækjum verður einnig kannað og tekið úrtak fyrirtækja í matvælaframleiðslu, matvælavinnslu og í sölu matvæla. Eins og heimilin þá verða þau fyrirtæki sem lenda í úrtaki beðin að mæla þann mat og drykk sem fer til spillis í fyrirtækinu í eina viku. Fyrirtækjarannsóknin fer fram seinni partinn í apríl og byrjun maí.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Margrét Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, margret.einarsdottir@ust.is s. 591-2075. Við bendum einnig áhugasömum á nýju vefsíðuna okkar matarsóun.is en þar má finna gagnlegar upplýsingar.