Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í dag úthlutaði Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða 647 m.kr. til brýnna verkefna tengdum sívaxandi fjölgun ferðamanna til Íslands. Umhverfisstofnun fékk að þessu sinni úthlutað um 115 m.kr. sem mun nýtast vel til brýnna verkefna víða um land og þakkar stofnunin fyrir þann skilning sem sjóðurinn hefur sýnt þessum verkefnum.

Eftirfarandi verkefni Umhverfisstofnunar hlutu styrk Framkvæmdasjóðsins:

44. Umhverfisstofnun - Brýnar úrbætur á ferðamannastöðum Kr. 12.000.000 ,- styrkur til einstakra verkefna á lista Umhverfisstofnunar yfir þá ferðamannastaði, sem stofnunin telur brýnt að bæta ástand á, hvort heldur sem um náttúruverndarsvæði er að ræða eða ekki. Um er að ræða einfaldar aðgerðir sem skila árangri og kalla ekki á deiliskipulag. Verkefnin snúast um stýringu umferðar með bættum merkingum og merkingum/viðhaldi stíga og bættu öryggi ferðamanna. Um er að ræða ferðamannastaði sem eru vinsælir og hefur umræddum svæðum hnignað töluvert vegna ágangs ferðamanna. Þau verkefni sem hljóta styrk eru Skilti til að sporna við ólöglegum akstri utan vega á hálendinu og Reykjanesfólkvangi, lagfæra göngustíg við Leiðarenda og lagfæringar á útsýnispalli við Hraunfossa.

45. Umhverfisstofnun - Dynjandi - bætt verndun, öryggi og aðgengi Kr. 30.000.000,- styrkur til viðhalds og uppbyggingar göngustíga, ásamt hönnun, smíði og uppsetningu útsýnispalla við Dynjanda. Brýnt verkefni vegna náttúruverndar, öryggis-, og aðgengismála á mjög vinsælum áfangastað ferðamanna.

46. Umhverfisstofnun - Geysir framkvæmd á stígum kr. 30.000.000,- styrkur til stígagerðar frá tjaldsvæði upp Laugarfell og þaðan með tröppum niður á Geysissvæðið sjálft. Útsýnispallur verður á Laugarfelli. Mikilvægt verkefni með tilliti til náttúruverndar og innviðauppbyggingar á einum helsta ferðamannastað landsins.

47. Umhverfisstofnun - Göngustígur í Skaftárhreppi, Dverghamrar og Kirkjugólf Kr. 4.744.300,- styrkur til lagfæringa og breytinga á göngustígum, ásamt uppsetningu á nýjum skiltum við Dverghamra og Kirkjugólf í Skaftárhreppi, sem hafa látið á sjá vegna fjölgunar ferðamanna. Verkefnið er mikilvægt vegna náttúruverndar, öryggis-, fræðslu- og aðgengismála á mjög vinsælum áfangastað ferðamanna.

48. Umhverfisstofnun - Hornstrandir friðland. Vörðuhleðsla milli Skálakambs og Atlaskarðs Kr. 1.184.500,- styrkur til viðhalds og endurhleðslu á þeim vörðum sem fallið hafa á undangengnum áratugum á gönguleiðinni milli Skálakambs og Atlaskarðs í friðlandinu á Hornströndum. Gott verkefni og vel hugsað sem samþættir öryggismál og verndun menningarminja.

49. Umhverfisstofnun - Kálfaströnd - göngustígar Kr. 1.825.809,- styrkur til áframhaldandi uppbyggingar á gönguleið frá afleggjara að Kálfastrandarbæjum að Klösum sem standa við Mývatn. Mikilvægt og vel undirbúið verkefni til náttúruverndar, aðgengis- og öryggismála á viðkvæmu svæði undir auknu álagi ferðamanna.

50. Umhverfisstofnun - Kálfaströnd - lokafrágangur umhverfis bílastæði Kr. 1.567.519,- styrkur til lokafrágangs umhverfis bílastæði við Kálfaströnd. Um er að ræða afmörkun stæðis frá umhverfi, hellulögn í jaðri, merkingar og málun bílastæða, auk þess að bæta gönguleið frá bílastæði að gönguleið að Klösum. Mikilvægur lokahnykkur á gerð bílastæðis á mikilvægum ferðamannastað sem ekki fær ásættanlegt útlit fyrr en frágangi lýkur.

51. Umhverfisstofnun - Skógaheiði, Skógafoss - Hönnun, skipulag og framkvæmdir. 1. áfangi Kr 12.000.000,- styrkur til lagfæringar og endurbóta á 4-5 km löngum göngustíg meðfram fossaröð Skógár ofan Skógafoss, en svæðið er á appelsínugulum lista Umhverfisstofnunar vegna ágangs ferðamanna. Prílur yfir fjárhelda girðingu verða fjarlægðar og sjálflokandi hlið sett í staðinn. Mikilvægt verkefni vegna náttúruverndar á vinsælum ferðamannastað undir miklu álagi. Hluti verkefnis er á lista Stjórnstöðvar um brýnar aðgerðir til að tryggja öryggi á ferðamannastöðum.

52. Umhverfisstofnun - Ströndin við Arnarstapa og Hellna; uppbygging innviða og heildrænt útlit Kr. 12.340.000,- styrkur til hönnunar og uppsetningar útsýnispalls og göngubrúar við strönd Stapa og Hellna, ásamt viðhaldi og uppbyggingu göngustíga. Verkefnið er forgangsverkefni vegna slits og álags á náttúru af völdum ferðamanna, öryggis- og aðgengismála. Svæðið er á rauðum lista Umhverfisstofnunar og komið að þolmörkum vegna umferðar. Hluti verkefnis er á lista Stjórnstöðvar um brýnar aðgerðir til að tryggja öryggi á ferðamannastöðum.

53. Umhverfisstofnun - Svalþúfa: viðbót við ECO-grids göngustígs í þjóðgarðinum Snæfellsjökli Kr. 3.037.400,- styrkur til viðbótar við ECO-grids göngustíg á Svalþúfu til að draga úr álagi á náttúru og umhverfi á Svalþúfu. Á sama tíma bætir verkefnið öryggi, aðgengi og upplifun ferðamanna án þess að rýra verndargildi svæðisins. Áframhald á vel unnu og brýnu verkefni m.t.t. slits og álags á náttúru af völdum ferðamanna, öryggis- og aðgengismála.

54. Umhverfisstofnun - Vatnshellir, bílastæði og bætt aðgengi Kr. 6.215.903,- styrkur til uppbyggingar á nýju bílastæði við Vatnshelli. Vel undirbúið og mikilvægt verkefni vegna öryggis, náttúruverndar og innviðauppbyggingar á vinsælum ferðamannastað.