Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið boðaði til morgunverðarfundar á dögunum, þar sem Saman gegn sóun – stefna um úrgangsforvarnir og ýmis verkefni tengd matarsóun voru kynnt. Umhverfisráðherra fór yfir helstu markmið stefnunnar sem eru að draga úr myndun úrgangs m.a. með því að bæta nýtingu auðlinda. Áhersla er lögð á fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs og þar með þróa samfélag sem hefur skilvirka auðlindanýtingu í fyrirrúmi. Tilgangur stefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr hráefnisnotkun og minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi. Fyrstu tvö ár stefnunnar verður áhersla lögð á úrgangsforvarnir gegn matarsóun.

Vefgátt um matarsóun, www.matarsoun.is, er eitt af þeim verkefnum sem falla undir þessa stefnu um úrgangsforvarnir og var hún opnuð formlega á þessum fundi. Mikilvægt er að fræða almenning um matarsóun og þar með breyta hugarfari fólks. Vefgáttin verður helsti vettvangur fyrir upplýsingagjöf til almennings, fyrirtækja og stofnana um matarsóun og hvernig sporna megi við henni. Ýmislegt hagnýtt er að finna á síðunni, m.a. skammtareiknivél, uppskriftavef og ýmis húsráð gegn matarsóun. Einnig er að finna upplýsingar um matarsóun á Íslandi og tengd verkefni. Að síðunni stendur samstarfshópur um aðgerðir gegn matarsóun sem samanstendur af fulltrúum frá Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Kvenfélagasambandi Íslands, Landvernd,  Samtökum iðnaðarins, Matvælastofnun, Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitafélaga, Vakandi, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum ferðaþjónustunnar. Ásamt því að standa að síðunni mun hópurinn hittast reglulega og auka samstarf um aðgerðir gegn matarsóun.

Önnur erindi á þessum morgunverðarfundi voru umfjöllun Benedikts Haukssonar frá GS1 um hvort ný strikamerki geti stuðlað að minni matarsóun, kynning Huldu Margrétar Birkisdóttur á aðgerðum Kvenfélagasambands Íslands gegn matarsóun og kynning Guðmundar Inga Guðbrandssonar frá Landvernd á nýju námsefni um úrgangsforvarnir. Greinilegt er að ýmis áhugaverð verkefni tengd úrgangsforvörnum eru þegar farin af stað. Þessi morgunverðarfundur var haldinn á Hallveigarstöðum hjá Kvenfélagasambandi Íslands. Til gamans má geta að nýtnin var í fyrirrúmi og boðið var upp á afganga frá Björnsbakaríi og útlitsgallaðar afurðir úr verslunum bæjarins.