Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Frávikum hefur fækkað töluvert hjá rekstraraðilum með starfsleyfi til úrgangsmeðhöndlunar. Árin 2011 og 2012 voru skráð mörg frávik vegna hauggassöfnunar, jarðfræðilegs tálma og botnþéttinga og sigvatnssöfnunar. Þessi mál eru smám saman komin í betra horf, bæði vegna þess að innleiðing nýrra reglna hefur verið skýrð, til dæmis í tengslum við mælingar og söfnun á hauggasi, og þá hafa undanþágur frá botnþéttingarkröfum einnig verið veittar í nýjum starfsleyfum. Þá voru frávik sem varða grunnatriði eins girðingar og aðgangsstýringu, birgingu úrgangs í lok dags og lögbundnar tryggingar algeng en eru nú orðið fátíð.

Einnig hefur urðunarstöðum og sorpbrennslum fækkað og starfssemi þeirra sem eftir eru er faglegri. Á heildina litið má segja að starfssemi sé nú meira í takt við útgefin starfsleyfi og leiða má líkur að því að markviss eftirfylgni hafi leitt til þess að rekstraraðilar séu nú meðvitaðari en áður um þau lög og reglur sem um starfssemina gilda.