Stök frétt

Umhverfisstofnun vill koma þeirri ábendingu á framfæri við seljendur og kaupendur leiktækja að rólur og önnur leiktæki sem seld eru til notkunar á fjöleignarhúsalóðum, við sumarhúsbyggð, á tjaldsvæðum og samkomustöðum þurfa að uppfylla ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Í umræddri reglugerð er kveðið á um öryggisreglur sem stuðla að öryggi barna með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt.

Víða má kaupa leiktæki sem ætluð eru til einkanota, s.s. í leikfangaverslunum, stórmörkuðum og byggingarvöruverslunum sem uppfylla ekki þessar kröfur, Upplýsingar um öryggiskröfur má finna á vefsíðu Neytendastofu. Þar kemur m.a. fram að á leikvöllum þar sem sem kaðlar, háir kastalar og rennibrautir eru sé nauðsynlegt að vara við kyrkingar- og fallhættu. Þetta á við um öll leiktæki.

Umhverfisstofnun áréttar við seljendur leiktækja að uppfylli þau ekki ákvæði reglugerðarinnar megi ekki selja þau til notkunar á öðrum svæðum en afgirtum einkalóðum sem börn eiga ekki greiðan aðgang að.

Umvherfisstofnun vill benda á að í þeim tilfellum þar sem keyptar hafa verið rólur sem ekki uppfylla kröfur ofangreindrar reglugerðar og þær notaðar á einkalóðum, megi í mörgum tilfellum auka öryggi þeirra með viðbótarbúnaði, einföldum plasthólkum, sem koma í veg fyrir að lykkja geti myndast á köðlunum. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.