Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær og sjálfboðaliðar stóðu fyrir árlegri hreinsunarferð innan friðlandsins á Hornströndum með ómetanlegri aðstoð Landhelgisgæslunar og áhafnarinnar á varðskipinu Týr um liðna helgi.

Siglt var á föstudeginum frá Ísafirði yfir í Hrafnfjörð og gengið yfir í Furufjörð þar sem landeigendur buðu sjálfboðaliðum gistingu. Laugardagurinn var tekinn snemma, strandlengja Furufjarðar hreinsuð og unnið í átt til norðurs eins og tími gafst til. Náðist að hreinsa um 8km af strandlínu og 55 saltsekkir fylltir eða sem nemur rúmlega 5tonnum af úrgangi, mestmegnis plastefni. Umhverfisstofnun vill þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við skipulag og framkvæmd hreinsunarinnar.

Sumarið 2016 mun Umhverfisstofnun hefja reglulega vöktun rusls á ströndum hér við land, m.a. á Hornströndum, þar sem aðferðafræði OSPAR verður notuð. Aðferðafræði snýst um að meta gerðir og magn rusls sem safnast fyrir yfir tiltekið tímabil, skrá það og skila niðurstöðum í gagnagrunn OSPAR en þannig getum við borið okkur saman við önnur lönd í NA-Atlantshafi.