Stök frétt

Í gær, þann 6. júní 2016, staðfestu umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, og bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar, Eiríkur Björn Björgvinsson, friðlýsingu fólkvangs í Glerárdal ofan Akureyrar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land sem er að mestu ósnortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari og er þannig stuðlað að því að varðveita  líffræðilega fjölbreytni og breytilegar jarðmyndanir.

Glerárdalur er mótaður af jöklum og einkennist berggrunnurinn af 10 milljón ára gömlum basalthraunlögum. Nálægð við forna megineldstöð veldur því að berggerðir eru fjölbreyttar á svæðinu auk þess sem steingerðar plöntuleifar, surtarbrandur og kísilrunninn trjáviður finnast víða á svæðinu. Gróðurfar í Glerárdal er fjölbreytt, bæði hvað varðar tegundir og gróðurlendi, en mólendi og votlendi setja svip sinn á dalinn.

Fólkvangurinn er 74,4 km2 að stærð.

Með staðfestingu friðlýsingar eru friðlýst svæði á Íslandi orðin 114 talsins og flatarmál þeirra samtals 20.852 km2.

Nánar má lesa um fólkvang í Glerárdal hér.