Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja fyrir meðferð og förgun úrgangsefna á athafnasvæði sorpbrennslustöðvarinnar í Helguvík og geymsluhúsnæði að Fitjabraut 10, Reykjanesbæ. Heimilt er að taka á móti allt að 25.000 tonnum af úrgangi á ári.

Starfsleyfistillagan miðast við sambærilega starfssemi og verið hefur hjá rekstraraðila. Helstu breytingar frá eldra starfsleyfi eru þær að heimild til brennslu sóttmengaðs úrgangs var aukin úr 300 tonnum í 400 tonn og heimild til brennslu spilliefna var aukin úr 800 tonnum í 1000 tonn. Eldra starfsleyfi stöðvarinnar fylgdi viðauki sem tilgreindi hvaða spilliefnum mætti brenna í stöðinni en slíkur viðauki fylgir ekki þeirri starfsleyfistillögu sem nú er auglýst, heldur má rekstraraðili brenna öllum gerðum spilliefna svo lengi sem hann heldur sig innan losunarmarka skv. símælingum. Í tillögunni er að finna losunarmörk fyrir frárennsli frá starfseminni og gerð krafa um sand- og olíuskilju. Gert er ráð fyrir að ákvæði um losunarmörk í frárennsli og hreinsunarbúnað fyrir frárennsli taki gildi ári eftir útgáfu starfsleyfisins og er þetta hugsað sem tími fyrir rekstraraðila til að aðlaga sig að nýjum kröfum. Í tillögunni er einnig skerpt á atriðum varðandi móttöku sóttmengaðs úrgangs, og er það í samræmi við reglur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), sjá viðauka II. 

Tillagan mun liggja frammi á skrifstofu Reykjanesbæjar á tímabilinu 13. júní til 8. ágúst 2016. Á vef Umhverfisstofnunar má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar og umsóknargögn.

Umhverfisstofnun hefur ekki áform um að halda almennan kynningarfund um tillöguna á auglýsingatíma, en mun endurskoða þá ákvörðun ef eftir því verður óskað. 

Frestur til að gera athugasemdir um starfsleyfistillöguna er til 8. ágúst 2016.

Tengd Skjöl