Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Margmenni var við opnun gestastofu að Malarrifi í gær, sama dag og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hélt upp á 15 ára afmæli sitt. Enduropnuð var sýning um náttúru og sögu þjóðgarðsins í húsnæði þjóðgarðsins að Malarrifi sem hefur nú verið gert upp með glæsibrag. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði gestastofuna formlega og flutt voru ávörp frá fulltrúum þjóðgarðsins, Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins Snæfellsbæjar.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar segir að opnun þjónustumiðstöðvar á Malarrifi sé mikilvægur áfangi í að bæta þjónustu fyrir gesti þjóðgarðsins. „Með opnuninni erum við að bregðast við auknum ferðamannastraumi inn á svæðið og sinna betur þeirri frumskyldu þjóðgarða að fræða um náttúru og sögu svæðisins og er það von mín að miðstöðin nýtist vel öllum þeim sem sækja þjóðgarðinn heim og ekki síst nærsamfélaginu sem er grunnurinn að öflugum þjóðgarði.“

Í húsnæðinu, sem áður hýsti búpening, rúmast nú gestastofa og upplýsingamiðstöð, vinnu- og fundaraðstaða, starfsmannaaðstaða, geymsla og vinnurými. Með þessu glæsilega húsnæði hefur aðstaða þjóðgarðsins, starfsmanna og gesta batnað til muna, ber t.d. að nefna að nú eru aðgengileg salerni allann sólarhringinn í húsinu.

Gestastofa þjóðgarðsins hefur verið opin stærsta hluta ársins en stefnt verður að heilsársopnun alla daga ársins enda nauðsynlegt að bregðast við með vaxandi fjölgun ferðamanna árið um kring. Í sumar verður opið frá klukkan 10 til 17 alla daga vikunnar.