Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Nú þegar árið er hálfnað og sumarfrí nálgast hjá flestum rekstraraðilum hefur hægst um hjá eftirlitsteyminu og eftirlitsferðum fækkað fram á haust. Það sem af er ári hafa eftirlitsmenn Umhverfisstofnunar heimsótt alls 45 rekstraraðila í öllum eftirlitsflokkum en reiknað er með að heildarfjöldi eftirlita í ár verði um 100 talsins og útgefnar eftirlitsskýrslur um 140. Farið hefur verið í þrjú fyrirvaralaus eftirlit á árinu en eftirlitsmenn eru ávallt viðbúnir að fara af stað ef ábendingar berast eða grunur leikur á að rekstraraðilar séu annað hvort ekki að fylgja starfsleyfi eða ef um óhöpp er að ræða.

Eftirlitsmenn hafa skráð 42 frávik hjá 15 rekstraraðilum en 27 voru frávikalausir og er það vel af sér vikið. Algengast er að skráð séu þrjú frávik á fyrirtæki en mesti fjöldi frávika á einstakt fyrirtæki í ár er fimm frávik og er úrbóta þörf þar.

Vert er að taka fram að rekstraraðilar taka nær alltaf mjög vel á móti eftirlitsmönnum, eru samvinnufúsir og taka ábendingum eftirlitsmanna vel.