Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Nú þegar árið er hálfnað er gott að fara yfir þær áminningar sem Umhverfisstofnun hefur veitt á árinu vegna frávika frá starfsleyfi hjá fyrirtækjum í mengandi iðnaði.

Í janúar veitti Umhverfisstofnun Langanesbyggð áminningu vegna tveggja frávika frá starfsleyfi urðunarstaðar á Þórshöfn. Í febrúar barst stofnuninni staðfesting á úrbótum frávikanna.

Þann 8. mars sl. veitti Umhverfisstofnun Elkem Íslandi ehf., sem framleiðir kísil og kísiljárn á Grundartanga, áminningu vegna fráviks sem varðar mánaðarlegar rykmælingar. Stuttu síðar barst Umhverfisstofnun áætlun um úrbætur vegna fráviksins og var hún samþykkt með bréfi 26. apríl sl. og svo voru úrbætur staðfestar í byrjun júní.

Fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði var einnig veitt áminning 8. mars sl. og var það vegna fráviks sem varðar það að gildi fitu í frárennsli fyrirtækisins mældist yfir losunarmörkum. Viku síðar barst áætlun um úrbætur frá rekstraraðila og fyrirheit um nýja mælingu að þeim loknum. Umhverfisstofnun hafa ekki borist nýjar mæliniðurstöður og eftirfylgni mun því halda áfram.

Þann 20. júní sl. veitti Umhverfisstofnun Íslenska Kalkþörungafélaginu á Bíldudal áminningu vegna tveggja frávika. Annað frávikið varðar það að afsog er ekki frá öllum rykuppsprettum verksmiðjunnar en allt ryk frá framleiðslunni á að vera leitt í gegnum viðeigandi afsog og rykhreinsunarbúnað. Hitt frávikið varðar að framleiddar eru fleiri afurðir í verksmiðjunni heldur en heimild er fyrir skv. starfsleyfi. Íslenska Kalkþörungafélagið hefur frest til 11. júlí nk. til að gera úrbætur, berist staðfesting á úrbótum eða ásættanleg áætlun um úrbætur ekki að þeim tíma loknum mun Umhverfisstofnun íhuga frekari þvingunaraðgerðir.

Hægt er að fylgjast með niðurstöðum eftirlits og framgangi eftirfylgniaðgerða á heimasíðu Umhverfisstofnunar undir liðnum Mengandi starfsemi