Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Kjetil Lenes

Spánarsnigillinn hefur verið í fréttum undanfarið þar sem hans varð nýverið vart í plöntuvörum sem voru í sölu á Norðurlandi. Snigillinn telst vera ágeng framandi tegund á Íslandi og gæti valdið miklum skaða í ræktun, líkt og gerst hefur í mörgum löndum Evrópu, þ.e. ef hann nær fótfestu hér. 

Spánarsnigill, sem ber latneska heitið Arion lusitanicus, fannst fyrst hér á landi árið 2003 og hefur nú orðið vart á 13 stöðum víðsvegar um land. Afar mikilvægt er að sporna við því af öllu afli að hann nái að festa sig í sessi. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hafa því útbúið leiðbeiningar til almennings og tilmæli til að sporna við því að spánarsnigill festi sig í sessi hér á landi.

Almenningur er hvattur til þess að fylgjast vel með í garðinum hjá sér og uppræta snigilinn um leið og hans verður vart en til þess má beita ýmsum aðferðum. Mikilvægt er að tilkynna fundinn til Náttúrufræðistofnunar Íslands með upplýsingum um fundarstað, aðstæður þar og dagsetningu ásamt ljósmyndum.

Snigillinn á að vera nokkuð auðþekkjanlegur en til þess að þekkja hann örugglega má notast við ljósmyndir sem finna má í hlekkjum hér að neðan. Fullorðnir sniglar geta verið 7-15 cm langir, dökkbrúnir, rauðleitir og jafnvel gulir á litinn og áberandi stærri en venjulegir garðasniglar.

Leiðbeiningar um hvernig á að aflífa spánarsnigla koma frá NOBANIS. Þegar spánarsnigill finnst í heimilisgarði er árangursríkast að tína snigilinn og drepa hann með því að annaðhvort skera af honum hausinn, setja hann ofan í heitt vatn eða frysta. Dauða snigla má setja í almennan heimilisúrgang. Til þess að spara sér vinnu borgar sig að nota gildrur sem maður útbýr sjálfur eða kaupir í garðvöruverslunum og setja í þær ávaxtaafganga eða bjór til að laða sniglana að. Mikilvægt er að eyða öllum lífstigum spánarsnigilsins og þar eru eggin ekki undanskilin. Þau má finna í 10-200 eggja klösum á stöðum þar sem raki helst hár eins og undir pottum og bökkum, steinum og spítum eða undir gróðri. Þau drepast líka í heitu vatni eða í frosti eins og sniglarnir.

Nánari upplýsingar um Spánarsnigilinn: http://www.ni.is/animalia/mollusca/gastropoda/arionoidea/arionidae/arion/arion_lusitanicus

https://www.nobanis.org/globalassets/speciesinfo/a/arion-lusitanicus/arion_vulgaris1.pdf