Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Landeigendur, Umhverfisstofnun og Vesturbyggð stóðu fyrir ruslahreinsun á Rauðasandi 2. júlí sl. annað árið í röð. Auglýst var eftir sjálfboðaliðum og tóku alls 17 manns þátt í hreinsuninni. Byrjað var þar sem frá var horfið á síðasta ári. Alls var hreinsað á um 4 km svæði og söfnuðust 20 m3 af rusli á þremur klukkustundum. Eins og í fyrra sumar þá var lang mest af ruslinu tengt sjávarútvegi og einnig einnota drykkjaumbúðir úr plasti og gleri.

Þetta verkefni er unnið í tengslum við OSPAR samninginn sem Ísland er aðili að. Samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur. Ákveðið var að Rauðisandur yrði ein af þeim fjörum á Íslandi sem vöktuð verður árlega. Afmarkað var 100 m svæði og verður allt rusl skráð sem berst þar á land á hverju ári. Það verður greint og skráð í gagnagrunn OSPAR. Tilgangur verkefninsins er m.a. að skrá hverskonar rusl við erum að hreinsa úr fjörunum og finna út hvaðan það kemur svo hægt sé að fara í forvarnarstarf og koma í veg fyrir að rusl berist í sjóinn.

Til að leysa þetta stóra vandamál þarf samstarf allra aðila. Nú er búið að hreinsa um 8 km af strandlengju Rauðasands og þá um 10 km eftir. Umhverfisstofnum, Vesturbyggð og landeigendur þakka öllum þeim sem tóku þátt og stefnt er á að halda áfram þar sem frá var horfið á næsta ári.