Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Vikuna 18.-22. júlí fór fram árlegur rannsóknarleiðangur líffræðinga til Surtseyjar og var tækifærið jafnframt nýtt til að hreinsa plast og annan úrgang af tanganum norðan á eyjunni sem borist hefur á land frá hafi og úr fjörum. Hreinsunin er samstarfsverkefni Surtseyjarfélagsins og Umhverfisstofnunar og lagði hvor aðili til einn starfsmann. Þeir vísindamenn sem dvöldu í eyjunni þessa daga lögðu jafnframt hönd á plóg eftir því sem þeir höfðu tök á.

Starfsmaður friðlandsins Þórdís V. Bragadóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir frá Surtseyjarfélaginu báru hitan og þungan af hreinsuninni sem tók tvo daga. Gengnar voru fjörur undir vökulum augum útselsins sem stakk regluglega upp kollinum úr öldurótinu til að fylgjast með hvað væri eiginlega í gangi en fyrsta daginn var smá rigning, nokkur vindur og öldurót. Seinni daginn hellirigndi og bættust þá við margir þeirra vísindamanna sem dvöldu í eyjunni við hreinsunina þar sem aðstæður til vísindarannsókna voru ekki upp á sitt besta þá stundina. Þá voru í ferðinni jafnframt tekin 100 metra snið á vestur og austurströnd eyjarinnar þar sem aðferðarfræði OSPAR var beitt við skráningu á þeim úrgangi sem þar var að finna. Stendur til að endurtaka þær mælingar árlega héðan í frá.

Björgunarfélag Vestmannaeyja mætti svo á svæðið á fimmtudagskvöldinu á björgunarskipinu Þór. Tóku þeir að sér að flytja allan þann úrgang sem safnaðist af eyjunni. Fluttu þeir jafnframt tvo starfsmenn Veðurstofu Íslands til eyjunar sem þangað voru komnir til að sinna viðhaldi veðurstöðvar sem þar er.

Ekki var reynt að leggja nákvæmt mat á þynd eða rúmmál þess úrgangs sem safnaðist en þar á meðal voru ca 460 netakúlur, nokkrir netabelgir í misjöfnu ástandi, nokkuð magn af plastflöskum og brúsum af öllum stærðum og gerðum, netabaujur, dekk á felgu, vel hnoðaðan málmköggul sem við nánari skoðun reyndist vera tunna, stígvél, fiskkar, fótboltar og brot úr plastkössum svo fáein dæmi eru nefnd. Það er þó ljóst að vetrarveðrin sem gengu yfir síðastliðin vetur höfðu haft sitt að segja um magnið en magn þess plastúrgangs sem var á tanganum hefur verið meira í gegnum tíðina. Til að mynda voru tvö fiskkör sem verið höfðu á tanganum undanfarin ár horfin í vor og sáust ummerki um að öldugangurinn hefði gengið langt inn á tangan og fjarlægt úrgang sem þar hafði verið.

Er öllum þeim sem komu að hreinsuninn og flutningi á úrgangngum úr eyjunni hér með þakkað kærlega fyrir hjálpina.  Fleiri myndir má finna á facebook síðu Umhverfisstofnunar.